Nýr framkvæmdastjóri Ljósleiðarans


Stjórn Ljósleiðarans hefur ráðið Einar Þórarinsson í starf framkvæmdastjóra félagsins. Einar sem býr yfir rúmlega tuttugu ára reynslu sem stjórnandi kemur til félagsins frá Sidekick Health en þar áður starfaði hann m.a. hjá Advania og Vodafone.

Einar er með B.Sc. gráðu í Tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfaði m.a. sem forstöðumaður rekstrar og upplýsingaöryggis hjá Vodafone auk þess sem hann leiddi upplýsingatæknimál félagsins. Þá var hann forstöðumaður þjónustu hjá Advania og síðar framkvæmdastjóri þjónustu og markaðsmála. Frá árinu 2021 hefur Einar starfað hjá heilsutæknifyrirtækinu Sidekick Health þar sem hann hefur borið ábyrgð á vörumótun og þróun miðlægs hluta tæknilausnarinnar, ásamt því að leiða skipulagningu á tæknilegum rekstri og innviðum.

Stefnt er að því að Einar hefji störf ekki síðar en 1. október n.k.

Birna Bragadóttir stjórnarformaður Ljósleiðarans:

„Það eru virkilega spennandi tímar framundan hjá okkur Ljósleiðarafólki og ég er sannfærð um að Einar muni leiða fyrirtækið áfram í rétta átt. Hann býr yfir mörgum kostum sem einkenna góðan stjórnanda og hefur á sínum starfsferli tekist á við fjölbreytt ábyrgðarsvið svo sem á sviði rekstrar, þjónustu, markaðs- og sölumála og upplýsingatækni í víðtækum skilningi. Þetta eru atriði sem við hjá Ljósleiðaranum horfum til og munu skipta sköpum í komandi vegferð.“

Einar Þórarinsson nýráðinn framkvæmdastjóri Ljósleiðarans

„Ljósleiðarinn er öflugt félag með jákvæða ásýnd og stendur á tímamótum um þessar mundir sem kallar á töluverðar breytingar hjá félaginu á næstu misserum, bæði í sölustarfi og uppbyggingu, rekstri og eftirliti með virkum innviðum um allt land. Að auki liggur fyrir að efla fjárhagslegan styrk félagsins og breytingar á eignarhaldi í því samhengi til að fá inn fé til uppbyggingarinnar sem og að takast á við verðugan keppinaut sem er kominn í erlenda eigu.“


Nánari upplýsingar:

Breki Logason

samskiptamál Ljósleiðari

6985671