Festi hf: Kaup Festi hf. á öllu hlutafé Lyfju hf. – Frumniðurstöður samrunarannsóknar Samkeppniseftirlitsins liggja fyrir.


Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar rannsókn á samkeppnislegum áhrifum kaupa Festi hf. á öllu hlutafé Lyfju hf., frá því að samrunaskrá var metin fullnægjandi þann 9. nóvember 2023.

Samkeppniseftirlitið hefur kynnt Festi frumniðurstöður í rannsókninni en bréf þess efnis barst eftir lokun markaða, föstudaginn 15. mars sl. Er tiltekið í frummatinu að samruninn krefjist að öllu óbreyttu íhlutunar af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Í bréfinu greinir að frummatið sé byggt á fyrirliggjandi gögnum, að það sé ekki bindandi fyrir Samkeppniseftirlitið og að það kunni að taka breytingum eftir því sem rannsókninni vindur fram. Þá er frummatinu ætlað að auðvelda Festi að nýta andmælarétt sinn samkvæmt stjórnsýslulögum og stuðla að því að rétt ákvörðun verði tekin í málinu.

Greining á frumniðurstöðum stendur yfir og hefur Festi frest til 29. mars nk. til að leggja fram athugasemdir vegna frummatsins, tillögur að mögulegum aðgerðum og skilyrðum vegna þeirra afmörkuðu þátta sem það tekur til sem og til að óska eftir sáttaviðræðum við Samkeppniseftirlitið.

Nánar verður upplýst um framgang málsins um leið og tilefni er til.

Nánari upplýsingar veitir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi (asta@festi.is)