Glitnir banki gefur út 500 milljóna evra skuldabréf á föstum vöxtum


Glitnir hefur gengið frá samningum um útgáfu skuldabréfa að upphæð 500 milljónir evra, sem jafngildir tæplega 45 milljörðum íslenskra króna, á föstum 4,375% vöxtum, með gjalddaga árið 2010. Þetta er fyrsta opinbera skuldabréfaútgáfa Glitnis í evrum frá því í júní 2005 og í fyrsta sinn sem íslenskur banki sækir fjármagn á Evrópumarkað með þessum hætti eftir þær sviptingar sem urðu á mörkuðum fyrri hluta síðasta árs. Umsjón skuldabréfaútgáfunnar var í höndum ABN Amro og Deutsche Bank.

Nær tvöföld umframeftirspurn var eftir skuldabréfum Glitnis í útboðinu. "Það felst mikil hvatning í viðtökunum sem þetta skuldabréfaútboð fær," segir Tómas Kristjánsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Glitnis. "Með nýlegri skuldabréfaútgáfu okkar í dollurum, sem var alheimsútgáfa, vildum við meðal annars ná til evrópskra fjárfesta sem ekki hafa keypt skuldabréf af bankanum síðastliðið ár. Þessi skuldabréfaútgáfa nú, sem er í evrum á föstum vöxtum, sýnir okkur að evrópskir fjárfestar hafa mikla trú á bankanum og að umræðan um íslenskt efnahagslíf er nú í meira jafnvægi en áður."

Tómas segir að Glitnir muni áfram leggja mikla áherslu á sterka lausafjárstöðu. "Síðustu tvær skuldabréfaútgáfur okkar hafa endurspeglað sterka stöðu gagnvart skuldaálagi bankans (e.CDS spreads) og  hafa gengið vel á eftirmarkaði. Nú á fyrstu þremur vikum ársins hefur bankinn þegar lokið mikilvægum áföngum í heildarfjármögnun ársins sem býður upp á fjölmörg tækifæri á komandi mánuðum og misserum."

Nánari upplýsingar

Tómas Kristjánsson, framkvæmdastjóri Fjármálasviðs Glitnis, sími 440 4656, (tomas.kristjansson@glitnir.is)

Ingvar Heiðar Ragnarsson, forstöðumaður alþjóðlegrar fjármögnunar, sími 440-4665, (ingvar.ragnarsson@glitnir.is)

Pétur Þorsteinn Óskarsson, forstöðumaður kynningarmála, sími 440-4990, (po@glitnir.is)