Niðurstöður hlutafjárútboðs


Hlutafjárútboði Marel Food Systems hf. lauk föstudaginn 6. júní sl. Góð
þátttaka var í útboðinu og voru alls 446 áskriftir sem bárust fyrir samanlagt
kr. 14.893.950.640 að söluverðmæti eða 167.347.760 hluti. Þetta gerir rétt
tæplega 7% umframeftirspurn. Stjórn Marel Food Systems hf. ákvað að nýta ekki
heimild til að fjölga þeim hlutum sem í boði voru og verður hlutafé félagsins
því aukið um alls 156.440.000 hluti. 

Eftir að hafa lagt mat á áskriftirnar ákvað stjórn Marel Food Systems hf. að
úthluta hluthöfum og fagfjárfestum í samræmi við áskriftir þeirra, en þó þannig
að Landsbanki Íslands hf., sem fyrir hlutafjárútboðið var annar stærsti
hluthafi félagsins, minnkar hlutfallslega við hlutafjáreign sína í Marel Food
Systems hf. Vilji stjórnarinnar stóð til að stuðla að dreifðari hlutafjáreign
sem og auknu floti hluta félagsins. 

Að sögn Harðar Arnarsonar forstjóra Marel Food Systems hf. lýkur fjármögnun
félagsins á kaupum Stork Food Systems með þessu hlutafjárútboði. „Marel Food
Systems er afar þakklátt fjárfestum fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt
félaginu með þátttöku sinni í útboði þessu sem og í fyrri útboðum. Þannig má
benda á að á síðustu tveimur árum hefur Marel Food Systems hf. aflað ríflega 34
milljarða króna með sölu nýrra hluta og skuldabréfa, á tímabili sem markast
hefur af miklu ytri vexti, en við tekur tímabil þar sem aðal áherslan verður
lögð á innri vöxt og aukningu hagnaðar“ sagði Hörður Arnarson. 

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbanka Íslands hf. hafði umsjón með hlutafjárútboðinu.