Eimskip afskrifar eignarhlut sinn í Innovate


-Afskrift vegna eignarhluts í Innovate 74 milljónir evra-

-Fyrrum eigendur Innovate hætta í framkvæmdastjórn Eimskips-

-Fjárhagsleg markmið ársins 2008 endurskoðuð -


Eimskipafélag Íslands hefur afskrifað eignarhlut í dótturfélagi sínu, Innovate
Holding, í Bretlandi. Bókfært virði eignarhluts er 74,1 milljónir evra, sem
afskrifaður er að fullu á öðrum ársfjórðungi. Unnið er að sölu eigna Innovate í
samstarfi við ráðgjafa í Bretlandi. 

Innovate sérhæfir sig í hitastýrðum flutningum og geymslum í Bretlandi og
starfrækir m.a. um 25 vörugeymslur á 11 stöðum. Eimskip fjárfesti í Innovate á
árunum 2006-2007 og á nú 100% eignarhlut í félaginu. Markaðsaðstæður í
Bretlandi hafa verið erfiðar undanfarna mánuði og nýting vöruhúsa og
flutningakerfa verri en búist hafði verið við. Samhliða uppbyggingu Innovate
gerði félagið langtímaleigusamninga vegna vöruhúsa og flutningakerfis, en
forsendur um nýtingu þeirra hafa ekki gengið eftir. Þá hefur fjármagns- og
leigukostnaður félagsins í hlutfalli af tekjum einnig stóraukist og taprekstur
gert það að verkum að félagið er of veikburða til að halda áfram starfsemi. 
Stjórn Eimskips hefur ákveðið að leggja ekki frekara fjármagn inn í rekstur
Innovate, m.a. í ljósi þess að umtalsvert fjármagn þarf til að tryggja
áframhaldandi rekstur félagsins og vegna áframhaldandi samdráttar á breska
markaðnum. 

Eimskip hefur á undanförnum vikum unnið með ráðgjafafyrirtæki í Bretlandi að
sölu eigna Innovate. Í því ferli hefur verið lögð rík áhersla á að vernda
hagsmuni viðskiptavina og kröfuhafa Innovate, þannig að þær breytingar sem
fylgja sölu einstakra eigna félagsins hafi sem minnst áhrif á viðskiptavini
þess. Breytingar á starfsemi Innovate og væntanleg eignasala, mun ekki hafa
nein áhrif á starfsemi Eimskips á öðrum mörkuðum. 

Ítarleg skoðun fer fram á undirbúningsferli vegna kaupa á Innovate

Stjórn Eimskip mun láta framkvæma ítarlega skoðun á því ferli sem viðhaft var
við kaupin á Innovate.  Fyrrum eigendur Innovate þeir Stephen Savage, Stephen
Dargavel og Peter Osborne hafa allir látið af störfum og hætt í
framkvæmdastjórn Eimskips. 

Fjárhagsleg áhrif vegna afskriftar á eignarhlut í Innovate

Á árinu 2008 var búist við að tekjur Innovate næmu um 300 milljónum evra, en
þau markmið hafa ekki gengið eftir. Með afskrift á eignarhlut í Innovate og
sölu þeirra eigna, eru fjárhagsleg markmið samstæðunnar því endurskoðuð fyrir
árið 2008.  Á sama tíma verður rekstraráætlun félagsins endurskoðuð í ljósi
breyttra markaðsaðstæðna. 

Búist er við að heildartekjur Eimskips á árinu 2008 verði 1,4 milljarðar evra
(áður 1,9 milljarðar evra). Lækkun frá fyrri tekjuáætlun skýrist af Innovate
(300 milljónir evra) og vegna lækkunar á flutningatekjum og gengisáhrifa (200
milljónir evra). Reiknað er með að framlegðarhlutfall verði um 11,5% (áður
9,5%). Hærra framlegðarhlutfall skýrist að mestu leiti af því að hætt hefur
verið við fyrirhugaða eignasölu í Bandaríkjunum og Kanada, sem mun
endurspeglast í hærri framlegð en á móti hærri fjármagnskostnaði. 

Áhrif á eiginfjárstöðu Eimskips og endurfjármögnun:
Bókfært virði Innovate í efnahagsreikningi Eimskips var 74,1 milljónir evra. Í
ljósi bágrar fjárhagsstöðu Innovate, þar sem unnið er að sölumeðferð allra
eigna félagsins, mun Eimskip gjaldfæra bókfært virði eignarhlutarins að fullu á
öðrum ársfjórðungi (1. febrúar - 30. apríl). Umrædd afskrift eignarhlutarins í
Innovate, er óháð væntanlegri sölu eigna Innovate. 

Eiginfjárstaða Eimskips mun veikjast við afskrift eignahlutarins í Innovate, en
stjórn félagsins skoðar nú ýmsa valkosti sem munu styrkja eiginfjárhlutfall
félagsins. 

Hagræðing í rekstri Eimskips
Í ljósi fyrirsjáanlegs samdráttar í flutningum mun félagið á næstu mánuðum
leita leiða til að hagræða í rekstri og aðlaga félagið að breyttum
markaðsaðstæðum. Siglingakerfi Eimskips er sveigjanlegt og einn af helstu
styrkleikum þess er hversu fljótt það getur aðlagað sig að breyttum aðstæðum og
munu stjórnendur félagsins skoða þau mál gaumgæfilega á næstu mánuðum. 

Stjórn Eimskips metur valkosti sem tengjast rekstri Versacold Atlas

Versacold Atlas er stærsta félag sinnar tegundar í heiminum og starfrækir m.a.
um 120 kæli- og frystigeymslur í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Argentínu,
Nýja Sjálandi og Asíu. Rekstur félagsins hefur gengið vel og góður árangur
náðst í samþættingu Versacold og Atlas frá sameiningu þeirra árið 2007, og
áfram er búist við góðum rekstrarárangri þeirra.  Með áframhaldandi eignarhlut
Eimskips í Versacold Atlas verður samvinna félaganna tryggð til framtíðar. 

Í tengslum við kaup Eimskips á kæli- og frystigeymslufyrirtækjunum Versacold og
Atlas í Bandaríkjunum og Kanada á árinu 2007, var ákveðið að vinna að sölu á
hluta af eignum félaganna,  með endurleigu. Frá kaupum hafa verið seldar eignir
að verðmæti um 462 milljónir evra (690 milljónir kanadískra dala), sem voru
endurleigðar. Ný stjórn félagsins hefur ákveðið að hverfa frá frekari sölu
eigna og meta aðra kosti, ss. að skoða möguleika þess að skrá Versacold og
Atlas á hlutabréfamarkað í Kanada, með það að markmiði að lækka verulega
skuldastöðu Eimskips og gera raunveruleg verðmæti Versacold Atlas sýnilegri. 


Frekari upplýsingar veitir

Halldór Kristmannsson
Framkvæmdastjóri Samskiptasviðs 
Sími: 525 7000 / 825 7221
Póstfang: halldor@eimskip.is