- Ársreikningur 2008


Ársuppgjör fyrir árið 2008

Félagsbústaðir, sem eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar, eiga og reka
félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Markmið félagsins er að starfa í þágu almenningsheilla og skal rekstur þess
vera sjálfbær 

Rekstur og afkoma
Leigutekjur Félagsbústaða h.f.  á árinu 2008  námu 1.962 millj.kr., sem er 14%
aukning tekna frá árinu á undan. Hækkunin skýrist annars vegar af hækkun leigu
samkvæmt neysluverðsvísitölu og hins vegar af fjölgun íbúða í útleigu á árinu. 
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað og matsbreytingu fjárfestingaeigna nam
824 millj.kr. en var 764 millj.kr árið á undan.
 
Tap á rekstri félagsins á árinu 2008  nam hins vegar 3.688 millj.kr. miðað við
2.261 millj.kr. hagnað  árið á undan.  Afkomusveifla milli ára skýrist annars
vegar af verðlagshækkun langtímalána og lækkunar á mati fjárfestingaeigna milli
ára. 

Efnahagur
Fjárfestingaeignir Félagsbústaða hf. eru færðar á gangverði samkvæmt
fasteignamati í lok árs og nam bókfært verð þeirra 33.249 millj.kr. í árslok
2008.  Eigið fé félagsins nam 10.661 millj.kr. í árslok og lækkaði um 3.642
millj. kr. frá árinu á undan.  Eiginfjárhlutfall var 32% en var 45% í árlok
2007. 

Reksturinn  skilaði 188 millj.kr. veltufé á árinu 2008 og handbæru fé frá
rekstri 279 millj.kr. 

Kaup og sala íbúða
Á árinu 2008 voru keyptar 83 íbúðir víðsvegar um borgina og seldar 3. 
Félagsbústaðir áttu 2143 íbúðir í árlok 2008  þar af 1845 leiguíbúðir og 298
þjónustuíbúðir fyrir aldraða ásamt tilheyrandi þjónusturýmum. Íbúðaeign
félagsins í árslok 2008 var um 18 íbúðir á hverja 1000 íbúa í Reykjavík sem er
svipaður fjöldi og árið á undan. 

Horfur
Miklar breytingar eru að eiga sér stað á almennum leigumarkaði íbúðarhúsnæðis í
borginni sem m.a lýsir sér í auknu framboði samfara lækkun leiguverðs. Ennþá
hefur aukið framboð húsnæðis  á almennum leigumarkaði ekki dregið úr eftirspurn
eftir félagslegu leiguhúsnæði en þegar líður fram á árið 2009 er viðbúið að
þeir leigjendur Félagsbústaða og umsækjendur á biðlista sem standa betur
fjárhags- og félagslega leiti á almennan leigumarkað eftir húsnæði sem betur
hentar vegna staðsetningar í borginni. Til lengri tíma gæti hér verið tækifæri
til þess að skapa aðstæður fyrir almennan leigumarkað á höfuðborgarsvæðinu og
um leið svigrúm  fyrir félagsleg leigufyrirtæki til þess að sinna betur þeim
sem minna mega sín. 

Eiginfjárstaða Félagsbústaða er sterk þrátt fyrir um 25% raunverðslækkun
húsnæðis á árinu 2008 og vel í stakk búin til þess að mæta frekari verðlækkun á
húsnæðismarkaði á árinu 2009.

Attachments

felagsbustair 2008.pdf lykiltolur ur uppgjori 2008.pdf