Afkoma Eyris Invest 2008


Hagnaður að fjárhæð 1.504 milljónir króna varð af rekstri Eyris Invest árið
2008 sem jafngildir 7,5% ávöxtun eigin fjár.  Eigið fé í árslok nemur 31.392
milljónum króna en var 18.133 milljónir króna í upphafi árs.  Í lok síðasta árs
og byrjun þessa var samið um framlengingu allra bankalána og er næsta afborgun
bankalána félagsins í maí 2011. 
•        Eigið fé er 31.392 milljónir króna og reiknast eiginfjárhlutfall 40,8%
•        Næsta afborgun bankalána er í maí 2011 og meðaltími langtímalána er
         þrjú og hálft ár 
•        Laust fé og aðrar bankainnistæður nema 6.942 milljónum króna
•        Markaðsskuldabréf á gjalddaga á seinni hluta þessa árs nema 3.567
         milljónum króna 
•        Eyrir Invest tók yfir hlut NBI hf. í London Acquisition (Stork) í
         nóvember 2008 í skiptum fyrir 27,5% eignarhlut í Eyri Invest. 
•        Eyrir Invest varð ekki fyrir neinu beinu tjóni af falli íslensku
         bankanna 
•        Eyrir Invest færir bókhald sitt í evrum frá og með 1. janúar 2009. 
Heildareignir félagsins um áramót eru 452 milljónir evra og eigið fé er 184
milljónir evra 

Meginhluti eigna Eyris Invest eru eignarhlutir í þremur leiðandi
iðnfyrirtækjum: Marel, Össuri og Stork.  Að auki fjárfestir Eyrir Invest í
ýmsum sprotafyrirtækjum og styður þau til vaxtar.  Stærsta fjárfesting
félagsins í sprotafyrirtæki er leiðandi hlutur í Calidris sem þróar og
markaðssetur hugbúnað til tekjustýringar hjá flugfélögum víða um heim. 

Eyrir Invest hefur skref fyrir skref, frá miðju ári 2006, farið út úr almennum
fjárfestingum á verðbréfamarkaði og hefur engar almennar fjárfestingar í
veltubók í dag. 

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Við erum sátt við að skila lítils háttar hagnaði við afar erfiðar aðstæður.
Við höfum skilað góðri ávöxtun í fortíð og höfum þolinmæði og styrk til að
takast á við núverandi aðstæður á heimsmörkuðum. Samkeppnisstaða félaga okkar
er firnasterk og þau eru í lykilaðstöðu til að skapa veruleg verðmæti þegar
hjól atvinnulífsins fara að snúast á nýjan leik.  Víða má nú sjá fyrstu merki
þess að hið versta sé að baki og heimsviðskipti að taka við sér að nýju eftir
snögga og djúpa niðursveiflu. 

Hlutverk okkar sem kjölfestufjárfestir er að láta stefnu félaga okkar verða að
veruleika.  Vöxtur þeirra síðustu ár hefur ekki verið tilviljanakenndur heldur
byggst á áralangri stefnumörkun sem miðar að því að koma þeim í fremstu röð,
hvert á sínu sviði. Félögin hafa brugðist hratt við núverandi aðstæðum og
lækkað kostnaðargrunn sinn til að mæta tímabundið lækkun tekna án þess að
skerða markaðsstöðu sína. 

Meginhluti fjármögnunar Eyris og kjölfestueigna byggist á eigin fé og
langtímalánum til allt að 8 ára. Ábyrg fjármögnun reynist okkur vel nú og erum
við afar þakklát fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt. Horft fram á
veginn er búist við góðum vexti í þeim atvinnugreinum sem kjölfestueignir Eyris
Invest starfa í, í matvælaiðnaði, heilbrigðisiðnaði og orkuiðnaði“ 



Eyrir Invest er langtímafjárfestir sem styður iðnfyriræki og sprota til vaxtar

Eyrir Invest hefur verið fjárfestir í Marel Food Systems og Össuri frá árinu
2004.  Eyrir Invest er stærsti hluthafi Marels með tæp 40% útgefins hlutafjár
og næststærsti hluthafi Össurar með 20% útgefins hlutafjár.   Eyrir Invest
færir eignarhlut sinn í þessum félögum samkvæmt hlutdeildaraðferð frá og með
miðju ári 2008 og hefur í kjölfarið fengið heimild ársreikningaskrár til að
færa bókhald sitt í evrum frá og með reikningsárinu 2009. 

Marel og Össur eru í dag stærstu félögin sem skráð eru á Nasdaq OMX á Íslandi,
og eru ennfremur á meðal stærstu útflutningsfyrirtækja á Íslandi. Þau eru
jafnframt að markaðsvirði á meðal 30% stærstu félaganna sem skráð eru í
Kauphallir á Norðurlöndunum.  Væri stuðst við síðasta skráða gengi hlutabréfa
félaganna myndi eiginfjárhlutfall Eyris reiknast um 30% í stað ríflega 40%. 
Markaðsbrestur hefur verið á íslenskum hlutabréfamarkaði frá hruni bankanna og
er það mat forsvarsmanna Eyris að tvíhliða skráning hlutabréfanna myndi
endurspegla betur raunvirði Marels og Össurar sem eru leiðandi félög, hvort á
sínu sviði. 

Marel, Össur og Stork bættu öll rekstrarafkomu sína á milli 2008 og 2007. 
Mikil áhersla hefur verið á kostnaðaraðhald í rekstri þeirra til að takast á
við krefjandi rekstrarumhverfi á árinu 2009 og til að auka hagnað til
framtíðar.  Heilbrigðis- og matvælaiðnaður hafa í fortíð sýnt minni næmni fyrir
efnahagssveiflum en flestar aðrar atvinnugreinar. 

"Sjá töflur í viðhengi"


•  Marel Food Systems er í dag leiðandi aðili á heimsvísu í hönnun, framleiðslu
og markaðssetningu á hátæknibúnaði til kjúklinga-, fisk- og kjötvinnslu.  Pro
forma velta félagsins á árinu 2008 var 613 milljónir evra og rekstrarhagnaður
nam 51,9 milljónum evra (leiðrétt EBIT).  Starfsmenn Marels eru 3.800 talsins,
þar af 350 á Íslandi, en sölunet félagsins nær til yfir 60 landa.  Árlega
fjárfestir Marel Food Systems um 30-40 milljónum evra til rannsóknar- og
þróunarstarfa.  Um 1% tekna Marel Food Systems á uppruna sinn á Íslandi og um
6% útgjalda. 

•  Össur er leiðandi stoðtækjaframleiðandi á heimsvísu og er meðal fremstu
framleiðanda á stuðningstækjum eftir fjölmargar vel heppnaðar yfirtökur á því
sviði á síðustu árum.  Velta félagsins á árinu 2008 var 350 milljónir
bandaríkjadala og EBITDA hagnaður nam 79,4 milljónum bandaríkjadala. Um 1.600
manns starfa hjá Össuri, flestir í Ameríku og Evrópu en um 260 á Íslandi. 
Árlega fjárfestir Össur um 25 milljónum bandaríkjadala til rannsóknar- og
þróunarstarfa.  Innan við 1% tekna Össurar á uppruna sinn á Íslandi og um 9%
útgjalda. 

•  Stork stendur á tveimur meginstoðum í dag: Stork Technical Services og Stork
Aerospace, sem felur annars vegar í sér þjónustu við orkuiðnað og hins vegar
þjónustu við flugiðnað.  Ársvelta félagsins árið 2008 var um 1,8 milljarður
evra og EBITDA hagnaður 175 milljónir evra.  Um 14.000 manns starfa hjá Stork
sem er með meginstarfsstöðvar á Benelux svæðinu.  Slagorð Stork er „Know-How“
sem endurspeglar mikilvægi rannsóknar- og þróunarstarfs í starfsemi
samstæðunnar. 

Í nóvember 2008 tókust samningar á milli NBI (Nýja Landsbanka) og Eyris Invest,
með samþykki Candover, um að Eyrir Invest yfirtæki eignarhlut NBI í London
Acquisition.  Eignarhlutur Eyris Invest í Stork eftir þau viðskipti er um 19%. 
Eyrir Invest greiddi fyrir eignarhlutinn í Stork með nýju hlutafé í félaginu og
eignaðist NBI 27,5% af útgefnu hlutafé í Eyri Invest við þau viðskipti. 

Horfur
Efnahagsniðursveiflan um heim allan hefur í senn reynst bæði sneggri og dýpri
en almennt var búist við.  Enn ríkir nokkur óvissa um hversu lengi niðursveiflan
varir en þó má víða sjá fyrstu merki þess að hið versta sé að baki.  Horft fram
á veginn er búist við góðum vexti í þeim atvinnugreinum sem kjölfestueignir
Eyris Invest tilheyra; matvælaiðnaði, heilbrigðisiðnaði og orkuiðnaði. 


Frekari upplýsingar veitir

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest

Sími: 525-0200

Attachments

eyrir invest arsr. 2008.pdf eyrir invest - afkomutilkynning 2008.pdf