Ársreikningur Landsnets hf. fyrir árið 2011

- Hagnaður ársins nam 840 milljónum króna -


Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 840 mkr. fyrir árið 2011 samanborið við hagnað að fjárhæð 3.563 mkr. á árinu 2010. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) nam 8.007 mkr. samanborið 8.882 mkr. á fyrra ári og lækkar því um 875 mkr. á milli ára. Lækkun á rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði skýrist einkum af lækkun gjaldskrár til stórnotenda á árinu og lægra meðalgengi bandaríkjadollara (USD) en gjaldskrá stórnotenda er í USD.

Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 4.396 mkr. á árinu 2011 á móti 2.155 mkr. á árinu 2010. Breyting hreinna fjármagnsgjalda á milli ára nemur því 2.241 mkr. og hefur það afgerandi áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins. Helstu breytingar í fjármagnsliðum á milli ára felast í hærri verðbólgu á árinu 2011 en á árinu 2010 og jákvæðum gengisáhrifum í rekstri félagsins á árinu 2010.

Eiginfjárhlutfall í árslok var 16,7% samanborið við 16,5% í lok fyrra árs. Eigið fé í árslok nam 12.462 mkr. samanborið við 11.622 í lok árs 2010. Heildareignir félagsins í árslok námu 74.679 mkr. samanborið við 70.513 mkr. í lok fyrra árs. Heildarskuldir námu 62.217 mkr. samanborið við 58.891 mkr. í lok fyrra árs.

Lausafjárstaða félagsins er sterk, í árslok nam handbært fé 10.511 mkr. Handbært fé frá rekstri nam 6.279 mkr. árið 2011 samanborið við 7.360 mkr. árið 2010.

Rekstrarhæfi félagsins er mjög gott. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 mun handbært fé standa undir fjárfestingum og afborgunum lána.

Ársreikningur Landsnets hf. var samþykktur á fundi stjórnar 23. febrúar 2012.

 

 

Frekari upplýsingar veitir:

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála,

sími 563 9311 eða

netfang gudlaugs@landsnet.is


Attachments