Kvika banki hf.: Afkomutilkynning fyrir árið 2016


Á stjórnarfundi þann 16. febrúar 2017, samþykktu stjórn og forstjóri ársreikning samstæðu Kviku banka hf. fyrir árið 2016.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku:

"Við erum stolt af þeim frábæra árangri sem náðst hefur í stefnulegri uppbyggingu Kviku, eina sérhæfða fjárfestingabanka Íslands. Að baki er fyrsta heila rekstrarár Kviku og afkoma ársins gefur okkur góðan byr undir báða vængi. Hagnaður ársins eftir skatta nam tæpum tveimur milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 34,7%.

Kvika hefur sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði og eftirspurn er mikil eftir sérhæfðri þjónustu okkar. Framtíðin er björt fyrir eina sjálfstæða fjárfestingabanka landsins.

Framúrskarandi árangur starfsfólks Kviku og fjárhagslegur styrkur Kviku grundvallast á skýrri framtíðarsýn og einbeittri stefnulegri áætlun bankans. Sterkur grunnur og vönduð vinnubrögð gerir okkur fær um að nýta bestu tækifærin til áframhaldandi sóknar, öllum hagaðilum til heilla."

Mikill tekjuvöxtur og góð afkoma

Hagnaður Kviku árið 2016 nam 1.928 milljónum króna og arðsemi eiginfjár var 34,7%. Hreinar rekstrartekjur námu 5.318 milljónum króna á tímabilinu og þar af voru tekjur á síðari árshelmingi 3.154 milljónir króna.  

Hreinar þóknanatekjur námu 2.840 milljónum króna á árinu. Vöxtur var í eignastýringu á árinu og námu eignir í stýringu 121 milljarði króna í lok árs 2016. Þóknanatekjur fyrirtækjasviðs jukust umtalsvert milli ára í kjölfar aukinna umsvifa og breyttra áherslna í útlánastarfsemi. Markaðsviðskipti bankans héldu sterkri stöðu sinni og umtalsverður vöxtur var í gjaldeyrismiðlun. Fyrirtækjaráðgjöf lauk stórum verkefnum á árinu, tengdum kaupum og sölu fyrirtækja og ráðgjafar á sviði innviða.

Fjárfestingatekjur námu 1.283 milljónum króna á árinu. Vaxtatekjur af skuldabréfaeign  bankans og hagnaðarhlutdeild fyrirtækjasviðs skilaði rúmlega fjórðungi fjárfestingatekna ársins. Afkoma af hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum í sjóðum nam 484 milljónum króna eða 12,9% ávöxtun af meðalstöðu ársins.

Hreinar vaxtatekjur bankans voru 1.064 milljónir króna á árinu og vaxtamunur útlána 3,8%. 

Rekstrarkostnaður nam 3.219 milljónum króna á árinu 2016. Rekstrarkostnaður reglulegrar starfsemi lækkaði í takt við áætlun og var 14% lægri á árinu 2016 miðað við mánaðarlegan rekstrarkostnað á seinni helmingi árs 2015.

Sterk fjárhagsleg staða

Í árslok 2016 námu heildareignir samstæðu Kviku 59.563 milljónum króna samanborið við 61.614 milljónir króna í árslok 2015 og nemur lækkunin 3% á tímabilinu. Útlán til viðskiptavina jukust á árinu og námu 26 milljörðum króna í lok árs 2016. Innlán frá viðskiptavinum námu 32.479 milljónum króna í árslok 2016 samanborið við 30.544 milljónir króna árið 2015.

Lausafjárstaða bankans er sterk og nam lausafjárþekjan (LCR) 152% í lok árs, vel umfram kröfur um 90% lágmarksþekju. Handbært fé í árslok nam 12.033 milljónum króna og lausafjáreignir og aðrar auðseljanlegar eignir námu 17.245 milljónum króna. Hlutfall handbærs fjár, lausafjáreigna og auðseljanlegra eigna af heildarskuldum bankans í árslok var 56%.

Bankinn var virkur á fjármagnsmarkaði á árinu og bætti kjör sín verulega í reglulegum víxlaútboðum, þar sem bankinn gaf út víxla að nafnvirði 8.000 milljónir króna. Í árslok 2016 námu útgefnir víxlar og víkjandi skuldabréf bankans 4.494 milljónum króna.

Eigið fé bankans í árslok var 7.348 milljónir króna og jókst úr 6.293 milljón króna í árslok 2015, þrátt fyrir lækkun hlutafjár að fjárhæð 1.000 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2016. Eiginfjárhlutfall í lok desember var 20,6% samanborið við 23,5% í árslok 2015. Eiginfjárstaða bankans er sterk og eiginfjárhlutfall vel umfram kröfur eftirlitsaðila.

Það helsta úr starfsemi bankans

  • Kvika var fremst í flokki íslenskra banka og fjármálafyrirtækja á sviði eignastýringar árið 2016, að mati breska fjármálatímaritsins World Finance. Tímaritið útnefnir árlega fyrirtæki fyrir framúrskarandi árangur og var þetta þriðja árið í röð sem bankinn fær viðurkenninguna.
  • Kvika undirritaði samstarfssamning við tvö alþjóðleg eignastýringar-fyrirtæki á árinu, T. Rowe Price og Wellington Management, um sölu og dreifingu á sjóðum þeirra. Þessir samningar eru til viðbótar við 13 ára samvinnu Kviku við Credit Suisse.
  • Kvika rannsakaði þjóðhagslega hagkvæmni sæstrengs til Bretlands fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Skýrslan var unnin af sérfræðingum Kviku í samstarfi við Pöyry, sem er eitt virtasta ráðgjafafyrirtæki Evrópu á sviði orkumála.
  • Kvika hafði umsjón með söluferli Nova stærsta farsímafélags Íslands.
  • Kvika var ráðgjafi við sölu á ISS Ísland og leiddi söluferlið af hálfu seljanda.
  • Kvika var ráðgjafi GE Capital við kaup á Skakkaturni ehf. sem er umboðsaðili Apple á Íslandi og rekur verslanir undir nafninu Epli.
  • Kvika var viðurkenndur ráðgjafi Iceland Seafood International á First North markaðnum, sem er norrænn hliðarmarkaður fyrir hlutabréfaviðskipti. 
  • Kvika var ráðgjafi við sölu á 40% hlut í Iceland Seafood International.
  • Kvika var ráðgjafi eiganda Húsafells við fjármögnun ferðaþjónustu í Húsafelli.
  • Júpíter rekstrarfélag hf., dótturfélag Kviku, stofnaði tvo sjóði í sérhæfðum fjárfestingum á fyrri hluta ársins en þar á meðal var JR Veðskuldabréf I sem sérhæfir sig í kaupum á veðskuldabréfum fyrirtækja.
  • Akta sjóðir hf., rekstrarfélag verðbréfasjóða, hóf starfsemi í samstarfi við Kviku.

Nánari upplýsingar veitir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku í síma 540 3230 eða 821 2051.

Um Kviku 

Kvika er sérhæfður fjárfestingabanki sem sinnir þörfum viðskiptavina á afmörkuðum syllum með fagþekkingu og sérhæfðu vöruframboði. Burðarás Kviku er öflug eignastýring og bankinn veitir sparifjár- og innlánseigendum alhliða þjónustu. Hjá samstæðu Kviku starfar samhentur hópur 86 sérfræðinga sem nær árangri í krafti menntunar, markaðsþekkingar og víðtækrar reynslu. Forstjóri er Sigurður Atli Jónsson og formaður stjórnar er Þorsteinn Pálsson. Eignarhald Kviku er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er að nær fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Nánar á: www.kvika.is.  

Attachments:

http://www.globenewswire.com/NewsRoom/AttachmentNg/168b784c-fa0c-4135-8310-7ac67f9ee350


Attachments

Kvika - Consolidated Financial Statements 31.12.16.pdf