Kauphallir Nasdaq á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum gefa út valfrjálsar leiðbeiningar um samfélagsábyrgð


Reykjavík, 23. mars, 2017 – Nasdaq (Nasdaq:NDAQ) tilkynnir að kauphallir fyrirtækisins á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum (Stokkhólmur, Helsinki, Kaupmannahöfn, Ísland, Tallinn, Riga og Vilnius) hafa gefið út valfrjálsar leiðbeiningar til stuðnings skráðum fyrirtækjum sem vilja birta upplýsingar um mælikvarða þeirra varðandi samfélagsábyrgð; eða umhverfismál, samfélagslega þætti og stjórnarhætti (e. ESG Disclosure – Environmental, Social, Governance). 

„Mörg þeirra fyrirtækja sem skráð eru á Nasdaq á Norðurlöndunum og í Eystrasaltríkjunum eru nú þegar leiðandi á alþjóðavísu þegar kemur að birtingu upplýsinga um sjálfbærni og nokkur íslensk fyrirtæki eru þar á meðal,“  sagði Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Okkar markmið með útgáfu á þessum leiðbeiningum er að beina athygli fyrirtækja að  samfélagsábyrgð, en ekki síst að hvetja þau til dáða og styðja þau í því verkefni að takast á við mikilvæg samfélagsleg málefni. Þetta verkefni styður vel við markmið Nasdaq Nordic um að bjóða upp á umgjörð sem stuðlar að sanngjarnari, gagnsærri og skilvirkari markaði fyrir alla hagsmunaaðila.“

Birting á ESG upplýsingum verður ekki skylda fyrir skráð fyrirtæki, en Nasdaq Nordic hefur útbúið leiðbeiningarnar til að aðstoða skráð félög sem hafa einsett sér að birta slíkar upplýsingar. Þær eru því valfrjálsar og óskuldbindandi og er ekki ætlað að keppa við, leysa af hólmi eða bæta neinu við þá ramma um birtingar sem þegar eru við lýði.

Leiðbeiningarnar endurspegla núverandi ráðleggingar sem gefnar voru út árið 2015 af Sameinuðu þjóðunum og samtökum um sjálfbærar kauphallir (e. SSE - Sustainable Stock Exchanges Initiative), vinnuhópi kauphalla um sjálfbærni hjá Alheimssamtökum kauphalla (e. World Federation of Exchanges) og önnur viðurkennd viðmið um birtingu ESG upplýsinga, ásamt Evróputilskipunum um birtingu sjálfbærniupplýsinga.

Adam Kostyál, framkvæmdastjóri hjá Nasdaq og yfirmaður skráninga í Evrópu, sagði: „Til að styðja okkur í þeirri vegferð að ná fram betri og víðtækari birtingu ESG upplýsinga sem leiðir til bættra markaða, bjóðum við skráðum fyrirtækjum, fjárfestum og öðrum hagsmunaðilum að koma á framfæri ábendingum um slíka upplýsingagjöf og um leiðbeiningarnar. Við munum einnig íhuga viðauka við leiðbeiningarnar sem snúa að hverjum og einum okkar sjö markaða til að tryggja betri framkvæmd.“

Nasdaq var einn stofnaðila að samtökum sjálfbærra kauphalla (Sustainable Stock Exchanges - SEE) hjá Sameinuðu þjóðunum árið 2012. Sjö kauphallir samstæðunnar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum slógust í hópinn með þátttöku í átaki SEE í nóvember 2015, sem snýst um að allar aðildarkauphallir SEE hjá Sameinuðu þjóðunum gefi út leiðbeiningar fyrir skráð fyrirtæki um birtingu ESG upplýsinga. Með útgáfu leiðbeininganna nú hafa þær uppfyllt skuldbindingar sínar.

Nasdaq Nordic býður upp á opna vefkynningu um birtingu ESG upplýsinga, fimmtudaginn 20. apríl 2017 frá kl. 12:00 til 12.45. Skráning á vefkynningu

Hlekkur á leiðbeiningarnar og tengd málefni

 

#

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq:NDAQ) er leiðandi í þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, kauphallartækni, eftirlits, skráninga, upplýsingaþjónustu og þjónustu við skráð fyrirtæki í sex heimsálfum. Nasdaq gerir viðskiptavinum sínum kleift að skipuleggja, hagræða og framkvæma framtíðarsýn sína í viðskiptum af öryggi, með margreyndri tækni sem veitir gagnsæi og innsýn í nútíma alþjóðlega fjármálamarkaði. Nasdaq er frumkvöðull í rafrænum kauphallarviðskiptum, en tækni þess er notuð á yfir 85 mörkuðum í 50 löndum og  knýr um það bil ein af hverjum 10 viðskiptum í heiminum. Nasdaq er heimili meira en 3,800 skráðra fyrirtækja að markaðsvirði yfir 10,1 billjón Bandaríkjadala og um það bil 18,000 viðskiptavina. Fyrir meiri upplýsingar, heimsæktu http://business.nasdaq.com/

Fyrirvari vegna staðhæfinga um framtíðarhorfur

Þau mál sem hér er skýrt frá taka til staðhæfinga um framtíðarhorfur sem gerðar eru samkvæmt svonefndum Safe Harbor ákvæðum í bandarískum verðbréfalögum frá 1995 (Private Securities Litigation Reform Act of 1995). Þessar staðhæfingar taka meðal annars til en takmarkast þó ekki við staðhæfingar um afurðir og þjónustu Nasdaq. Við minnum á að þessar staðhæfingar eru ekki trygging fyrir framtíðarafkomu. Raunveruleg niðurstaða kann að vera allt önnur en sú sem fram kemur berum orðum eða með öðrum hætti í staðhæfingum um framtíðarhorfur. Í staðhæfingum um framtíðarhorfur eru ýmsir áhættu- og óvissuþættir eða aðrir þættir sem Nasdaq hefur ekki stjórn á. Þessir þættir byggjast á en takmarkast þó ekki við þætti sem gerð er grein fyrir í ársskýrslu Nasdaq á svonefndu Form 10-K og árshlutaskýrslum sem sendar eru til bandaríska verðbréfaeftirlitsins. Við tökumst ekki á hendur neinar skuldbindingar um að endurskoða að neinu leyti staðhæfingar um framtíðarhorfur.

Nasdaq Nordic lýsir sameiginlegri þjónustu Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm. 

         Fjölmiðlar:
         Kristín Jóhannsd
         kristin.johannsdottir@nasdaq.com
         868 9836