Kvika banki hf.: Tilkynning frá stjórn Kviku banka hf.


Tilkynning frá stjórn Kviku banka hf.
27. apríl 2017

Sigurður Atli Jónsson forstjóri Kviku hefur tilkynnt stjórn bankans ákvörðun sína um að láta af störfum.

Sigurður Atli hefur verið forstjóri Kviku frá 1. júlí 2011, en bankinn hét þá MP banki. Hann leiddi farsællega uppbyggingu bankans, sem fjármagnaður var með nýju hlutafé vorið 2011.

Sigurður Atli leiddi samruna MP banka og Straums árið 2015. Samruninn tókst framar öllum vonum á þessum tíma undir stjórn og leiðsögn Sigurðar Atla. Nýr, sjálfstæður og sérhæfður fjárfestingabanki varð til undir nafni Kviku.

Mjög góð samlegðaráhrif náðust á fyrstu sex mánuðum eftir sameiningu. Afkoma Kviku árið 2016 nam 2 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 34,7%. Sigurður Atli hefur stýrt bankanum í þá sterku stöðu sem hann er í og skilar mjög góðu búi, en hagnaður Kviku á fyrstu þremur mánuðum þessa árs er um 400 milljónir króna.

Sigurður Atli:
"Það er ánægjulegt hve vel hefur tekist til að búa til nýjan íslenskan banka. Þróun hans hefur tekist einstaklega vel. Einstakur árangur bankans grundvallast á skýrri framtíðarsýn um að vera sjálfstæður og sérhæfður fjárfestingabanki, samþættri stefnulegri áætlun, skipulegri uppbyggingu fyrirtækjamenningar og umfram allt frábæru starfsfólki.
Það er ljóst að þetta verkefni hefur tekist einstaklega vel og framtíð bankans er afar björt. Ársuppgjör Kviku í fyrra og afkoman núna á fyrsta fjórðungi eru til vitnis um það. Slíkar niðurstöður gera mig óneitanlega stoltan sem forstjóra og leiðtoga þessa góða hóps fólks sem ég hef haft ánægju af að starfa með. Ég vil þakka frábærum viðskiptavinum og fyrirtækjum í klasasamfélagi Kviku fyrir góð samskipti og gott samstarf.

Skýr markmið varpa ljósi á tækifærin. Núna er rétti tíminn fyrir mig til að gera breytingar. Ég óska starfsfólki Kviku, stjórn og hluthöfum allra heilla í framtíðinni".

Stjórn Kviku sér á eftir Sigurði Atla og þakkar honum fyrir vel unnin störf í þágu hluthafa, viðskiptavina og starfsfólks Kviku. Stjórn metur mikils forystu hans í að gera Kviku að traustum og öflugum fjárfestingabanka í fremstu röð og þakkar honum traust og heilsteypt samstarf.

Virðingarfyllst,

Þorsteinn Pálsson
Formaður stjórnar Kviku banka hf.