Kvika banki hf.: Kvika gerir kauptilboð í allt útgefið hlutafé Virðingar


Tilkynning

Reykjavík, 20. júní 2017

Kvika gerir kauptilboð í allt útgefið hlutafé Virðingar

Stjórn Kviku hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Virðingar. Ef af kaupunum verður er stefnt að því að sameina félögin.

Kaupverð samkvæmt tilboðinu nemur 2.560 milljónum króna og verður greitt með reiðufé. Kaupin eru háð ákveðnum skilyrðum, þar á meðal samþykki hluthafa beggja félaga og samþykkis eftirlitsstofnana.

Stjórn Virðingar hefur móttekið kauptilboðið og ákveðið að beina því til hluthafa félagsins.

Fyrir nokkru síðan var undirritaður samningur um kaup Virðingar á ÖLDU sjóðum hf. Verði tilboði Kviku til hluthafa Virðingar hf. tekið, er sá samningur háður endanlegu samþykki Kviku og hluthafa Öldu.

Kauptilboðið gildir til kl. 16:00 þann 30. júní næstkomandi. Ef samþykki að lágmarki 90% hluthafa Virðingar fæst fyrir þann tíma er stefnt að boðun hluthafafundar í Kviku um miðjan júlí.

Nánari upplýsingar veita:
Þorsteinn Pálsson, stjórnarformaður Kviku banka hf. í síma 540 3200.
Kristín Pétursdóttir, stjórnarformaður Virðingar hf. í síma 565 8500.

Um Kviku banka hf.
Kvika er eini sjálfstæði og sérhæfði fjárfestingabanki landsins. Bankinn sinnir þörfum viðskiptavina á afmörkuðum syllum með fagþekkingu og sérhæfðu vöruframboði. Burðarás Kviku er öflug eignastýring og veitir bankinn sparifjár- og innlánseigendum alhliða fjármálaþjónustu.

Hjá Kviku starfar samhentur hópur 86 sérfræðinga sem nær árangri í krafti menntunar, markaðsþekkingar og víðtækrar reynslu. Eignarhald Kviku er gagnsætt og er hann eini bankinn sem er að fullu í eigu einkaaðila s.s. lífeyrissjóða, fyrirtækja og einstaklinga. Forstjóri bankans er Ármann Þorvaldsson og formaður stjórnar Þorsteinn Pálsson. Nánar á: www.kvika.is.    

Um Virðingu 
Virðing er alhliða verðbréfafyrirtæki sem veitir fjárfestingatengda þjónustu á sviði eignastýringar, markaðsviðskipta, fyrirtækjaráðgjafar og reksturs framtakssjóða. Hjá Virðingu starfa 31 sérfræðingur og hefur félagið starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og starfar undir eftirliti FME. Virðing er með ríflega 100 milljarða króna í eignastýringu og starfsemi í Borgartúni 29 í Reykjavík. Forstjóri félagsins er Hannes Frímann Hrólfsson og formaður stjórnar er Kristín Pétursdóttir. Nánar á www.virding.is