Síminn hf.: Endurfjármögnun Símans hf.


Síminn hf. hefur náð samkomulagi við Arion banka hf. og Íslandsbanka hf. um helstu skilmála í tengslum við endurfjármögnun allra langtímaskulda  félagsins að fjárhæð kr. 18,4 milljörðum, ásamt því að ná samkomulagi við Arion banka hf. um lánalínur að fjárhæð allt að kr. 2 milljörðum.

Lokagjalddagi hins nýja láns er þann 10. júlí 2025, en félagið getur óskað eftir framlengingu lánsins um átta ár fyrir lokagjalddagann. Heimilt er að fyrirframgreiða lánið um kr. 2 milljarða á hverju almanaksári án uppgreiðslugjalds og að þremur árum liðnum fellur uppgreiðslugjald niður.

Andvirði hins nýja láns verður nýtt til þess að gera upp núverandi langtímaskuldir félagsins, þar með talið samkvæmt skuldabréfaflokknum SKIPTI 13 01,  sbr. fyrri tilkynningu félagsins þann 16. febrúar sl.

Lánskjör hins nýja láns miðast við REIBOR vaxtakjör sem eru lægri en í núverandi fjármögnun þess. Vaxtakjör geta breyst á lánstímanum. Viðskiptakjör eru að öðru leyti trúnaðarmál milli aðila. Skilmálar eru sams konar og í núverandi lánasamningi og hafa lánveitendur heimild til að krefjast endurgreiðslu ef verulegar breytingar verða á eigendahóp félagsins, þ.m.t. ef yfirtökuskylda skapast í skilningi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Hin nýja fjármögnun verður tryggð með veði í hlutum dótturfélaga, innstæðum, kröfum samkvæmt lánasamningum innan samstæðu, hugverkaréttindum og vörureikningum, en auk þess verða Míla ehf. og Sensa ehf. ábyrgðaraðilar gagnvart hinni nýju fjármögnun. Þannig verða fasteignir samstæðunnar, fastlínu- og farsímakerfi, og samningsbundin réttindi í vátryggingarsamningum, hýsingarsamningum, leigusamningum og þjónustusamningum ekki lengur veðsett og þá er uppfærsla veða umfangsminni.

Þann 31. mars 2017 námu vaxtaberandi skuldir samstæðunnar um kr. 22,5 milljörðum. Félagið gerir ráð fyrir að nýta um kr. 3 milljarða af handbæru fé til uppgreiðslu á skuldabréfaflokknum SKIPTI 13 01 en endurfjármagna um kr. 4 milljarða með hinni nýju lántöku. Gert er ráð fyrir að endurfjármögnunin muni lækka fjármögnunarkostnað samstæðunnar um kr. 200 milljónir á ársgrundvelli í samanburði við núverandi fjármögnun, þó háð verðbólguþróun yfir tímabilið. Gert er ráð fyrir því að afborgun langtímalána muni lækka um kr. 250 milljónir á ársgrundvelli. Árlegur kostnaður vegna reksturs láns- og veðsamninga félagsins hefur að meðaltali verið um kr. 20 milljónir frá ársbyrjun 2014 en gert er ráð fyrir að slíkur kostnaður muni lækka í um kr. 5 milljónir á ári, vegna minni veðkvaða.

Fjármögnunin er háð fyrirvörum um endanlega skjalagerð og endanlegu samþykki lánveitenda. Búist er við að lánið verði greitt út í síðasta lagi þann 5. júlí 2017.

Orri Hauksson, forstjóri Símans hf.: „Við fögnum nýju og hagfelldu samkomulagi við Arion banka og Íslandsbanka um endurfjármögnun allra langtímaskulda Símans. Gamla fyrirkomulagið var barn síns tíma og átti tilurð sína í fjárhagslegri endurskipulagningu á árinu 2013 þegar samstæðan hafði áður safnað allt of miklum skuldum. Nú er staðan allt önnur og býður nýja fjármögnunin upp á mikinn sveigjanleika varðandi tímasetningar endurgreiðslu, veðsamninga og ákvörðunartöku. Kostnaður okkar við fjármögnun lækkar umtalsvert við þessa aðgerð og gerir Símanum kleift að þróa starfsemi sína áfram með léttari efnahag en fyrr. Allar breytingar á samstæðunni, sem líklegt er muni áfram verða ríkjandi á næstu árum, munu nú byggjast á liprum efnahagsreikningi og lágmarks óþarfa fyrirstöðum. Við þökkum Arion banka og Íslandsbanka fyrir gott samstarf við samningagerðina og hlökkum til að vinna með þeim á næstu árum. Jafnframt þökkum við lífeyrissjóðunum fyrir dyggan stuðning við félagið með aðkomu sinni að fjármögnun félagsins undangengin ár.“

 

Nánari upplýsingar veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans hf., s. 550-6003 (orri@siminn.is)

Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans hf., s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)