Breytt markaðsstaða mun hafa áhrif á annan ársfjórðung Haga hf.


Í fréttatilkynningu sem Hagar sendu frá sér þann 28. júní s.l. um uppgjör fyrsta ársfjórðungs kom fram að samkeppnisumhverfi verslunar á Íslandi er að breytast. Félagið hefur undirbúið sig vel undanfarin ár, m.a. með hagræðingaraðgerðum og betri innkaupum.  Áfram er unnið að hagræðingu og að bæta verslanir félagsins. 

Nú er ljóst að breytt samkeppnisumhverfi hefur haft áhrif á rekstur og markaðsstöðu félagsins.  Bráðabirgðauppgjör fyrir júnímánuð, sem er fyrsti mánuður annars ársfjórðungs, liggur nú fyrir.    

Eins og þegar hefur komið fram var magnaukning á fyrsta ársfjórðungi 1,8% milli áranna 2016 og 2017 í matvöru­verslunum samstæðunnar þrátt fyrir 2,6% samdrátt í krónum talið. Þá jókst fjöldi viðskiptavina matvöruverslana um 1,7%, en í þessum tölum var ekki búið að taka tillit til lokunar matvöruhluta Hagkaups Holtagörðum og efri hæðar Hagkaups Kringlu.  Ef bornar eru saman sambærilegar tölur fyrir júnímánuð þá var magnminnkun í einingum 9,4% í matvöruverslunum samstæðunnar og viðskiptavinum fækkaði um 1,8% á milli ára.  Sölusamdráttur á milli ára var 8,5% í krónum talið í júní að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi.  Framlegðarhlutfall samstæðunnar lækkaði um 0,4 prósentustig á milli júnímánaða 2016 og 2017. 

Þá er rétt að árétta að aflögð starfsemi og verðhjöðnun vegna mikillar styrkingar íslensku krónunnar, betri innkaupa og lægra innkaupsverðs á samanburðartímabilinu hefur áhrif á veltu félagsins. Stórir kostnaðarliðir hafa hins vegar hækkað, m.a. vegna kjarasamninga og þenslu á vinnumarkaði, auk þess sem flestir leigusamningar félagsins eru bundnir vísitölu neysluverðs, sem hefur hækkað á tímabilinu.

Því er ljóst að miðað við bráðabirgðauppgjör júnímánaðar mun breytt markaðsstaða hafa nokkur áhrif á afkomu annars ársfjórðungs, en of snemmt er að segja til um hve mikil áhrifin verða á afkomu næstu ársfjórðunga eða til framtíðar.

 

 

Nánari upplýsingar veitir Finnur Árnason, forstjóri Haga hf., í síma 530-5500.