Frá Orkuveitu Reykjavíkur


Reykjavík, 2017-11-20 19:07 CET (GLOBE NEWSWIRE) -- Eigendur Foss fasteignafélags, sem á húseignirnar á Bæjarhálsi 1, hafa samþykkt kauptilboð Orkuveitu Reykjavíkur (OR) í félagið. Með því fær OR aftur forræði yfir húsunum þar sem meginstarfsemi fyrirtækisins er. OR seldi fasteignafélaginu húsin árið 2013 og hefur verið leigjandi þar síðan. Eftir að í ljós kom að um þriðjungur húseignanna, svokallað vesturhús, var stórskemmt af raka hafa OR og eigendur húsanna leitað bestu lausna. Vesturhúsið hefur staðið autt um nokkurra mánaða skeið. Viðræður aðila leiddu til þess að OR kaupir allt hlutafé fasteignafélagsins á 1,4 milljarða króna og tekur yfir lán sem á félaginu hvíla sem nema 4,1 milljarði. OR hyggst endurfjármagna þau með útgáfu skuldabréfa. Gert var ráð fyrir útgjöldum vegna þessa í fjárhagsáætlun OR sem var samþykkt í stjórn 20. október síðastliðinn og send fjölmiðlum.

OR hefur kynnt nokkra valkosti til að bregðast við skemmdunum og eru nokkrir þeirra til nánari skoðunar.

Þá hefur OR lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur beiðni um að dómkvaddur matsmaður verði fenginn til að meta ástæður skemmdanna og tjónið af þeim. Niðurstaðan verður grunnur að því að meta lagalega stöðu OR.

         Nánari upplýsingar:
         Bjarni Bjarnason
         forstjóri
         516 6100