Áætlun Kviku banka hf. fyrir árið 2019 og skráning á Aðalmarkað Nasdaq Iceland


Áætluð afkoma

Stjórn Kviku hefur samþykkt rekstraráætlun bankans fyrir árið 2019. Þar sem fyrirvarar um samþykki hluthafafundar Kviku og eftirlitsaðila höfðu ekki verið uppfylltir við gerð áætlunarinnar tekur hún ekki tillit til kaupa á Gamma Capital Management hf.

Áætlunin gerir ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta verði 1.990 m. kr. og arðsemi eiginfjár fyrir skatta því 15,3%.

Heildartekjur ársins 2019 eru áætlaðar 6.450 m. kr., þar af er áætlað að 60% verði þóknanatekjur, 31% vaxtatekjur og 9% fjárfestingatekjur.

Áætlaðar þóknanatekjur skiptast á milli sviða með eftirfarandi hætti; 51% eignastýring, 16% markaðsviðskipti, 15% fyrirtækjasvið, 13% fyrirtækjaráðgjöf og 5% annað.

Áætlað er að heildareignir verði 108 ma. kr. í lok árs 2019.

Afkoma bankans getur vikið töluvert frá áætlun, m.a. vegna markaðsaðstæðna. Stjórn Kviku hefur samþykkt að viðmið um upplýsingagjöf til markaðsaðila vegna slíkra frávika skuli vera ef bankinn telur að afkoma ársins fyrir skatta, fyrir bankann í heild, víki meira en 10% frá útgefinni áætlun.


Skráning á Aðalmarkað Nasdaq Iceland

Stjórn bankans hefur tekið ákvörðun um að stefna á skráningu á Aðalmarkað Nasdaq Iceland fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2019. Ekki er gert ráð fyrir hlutafjárútboði samhliða skráningunni.


Ármann Þorvaldsson, forstjóri:

Áætlun fyrir árið 2019 gerir ráð fyrir áframhaldandi góðum rekstri.

Í nóvember var undirritaður kaupsamningur um allt hlutafé í Gamma Capital Management. Í ljósi sterkrar fjárhagsstöðu bankans er ekki þörf á að ráðast í útgáfu nýrra hluta vegna kaupanna.

Hlutabréf bankans voru skráð á First North markaðinn í mars á þessu ári. Það hefur gefið góða raun sem má t.d. sjá á því að hluthöfum bankans hefur fjölgað mikið og eru nú um 700 talsins. Það er því eðlilegt skref að skrá hlutabréfin á Aðalmarkað Nasdaq Iceland.“ 

Nánari upplýsingar vetiri Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku í síma 540 3200.