Uppgjör Brims á öðrum ársfjórðungi 2023


Starfsemin á 2F 2023

Að lokinni loðnuvertíð snéru uppsjávarskip félagsins sér að kolmunnaveiðum og lönduðu 30.000 tonnum af kolmunna á öðrum ársfjórðungi. Kolmunninn var unninn í fiskimjölsverksmiðjum félagsins á Akranesi og Vopnafirði. Auk afla af eigin skipum Brims tók verksmiðjan á Vopnafirði á móti tæpum 7.500 tonnum af færeyskum skipum þannig að móttekið magn í fiskimjölsverksmiðjum félagsins var sambærilegt og á öðrum ársfjórðungi árið áður. Veiði á kolmunna var með besta móti og verð á fiskimjöli hátt. Í lok annars ársfjórðungs héldu uppsjávarskipin til makrílveiða og komu fyrstu makrílfarmarnir á land í lok júní.

Bolfiskveiðar og -vinnsla gengu vel að undanskildum veiðum á ufsa sem héldu áfram að valda vonbrigðum á öðrum ársfjórðungi eins og á þeim fyrsta. Afli bolfiskskipa félagsins var um 10.300 tonn á öðrum ársfjórðungi en var um 13.300 tonn árið áður.  Afurðaverð á ferskum landunnum bolfiskafurðum var hátt en á móti gaf afurðaverð á sjófrystum þorsk- og ýsuafurðum verulega eftir frá því sem var á sama tímabili í fyrra.

Í apríl var endanlega gengið frá viðskiptum vegna kaupa Brims á 50% hlut í Polar Seafood Denmark A/S eftir að allir fyrirvarar voru uppfylltir. Samið var um kaup á frystitogaranum Tuukkaq frá Grænlandi í júní og fékk skipið nafnið Þerney.

Lokið var við endurfjármögnun félagsins í júní með 220 milljóna evra sjálfbærnitengdu sambankaláni. Auk þess hefur félagið tryggt sér lánalínur að fjárhæð 35 milljónir evra.

Helstu atriði úr fjárhagsuppgjöri 2F 2023

  • Vörusala var 109 m€ á fjórðungnum samanborið við 148 m€ á öðrum fjórðungi 2022
  • Hagnaður var 10 m€ á fjórðungnum samanborið við 22 m€ á öðrum fjórðungi 2022
  • EBITDA var 16 m€ og EBITDA hlutfall 14,9%
  • Eignir hafa hækkað um 12 m€ frá áramótum og voru 955 m€ í lok tímabilsins
  • Eigið fé þann 30. júní 2023 var 442 m€ og eignfjárhlutfall 46,2%

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Afkoman af rekstri Brims það sem af er þessu ári er viðunandi. Aðstæður eru engu að síður krefjandi og ýmis teikn á lofti um að herða þurfi róðurinn.

Þegar horft er um öxl sést að hagnaður á öðrum fjórðungi er sá þriðji mesti í a.m.k. áratug. Aðeins í fyrra og hitteðfyrra var hann meiri. Þá sjáum við einnig að hagnaður á fyrri helmingi árs hefur aðeins einu sinni verið meiri en það var í fyrra þegar uppsjávarafurðir voru seldar í óvenjumiklu magni.

Til næstu missera litið eru hins vegar blikur á lofti. Framlegðin af starfseminni fer minnkandi. Veiðar og vinnsla uppsjávartegunda hefur verið nokkuð stöðug en niðurskurður aflaheimilda í bolfiski er farinn að bíta – aflinn er minni, það dregur úr hagkvæmni sem skilar sér í minni framlegð.

Aðstæður á alþjóðamörkuðum voru áfram erfiðar á fyrri hluta ársins. Lægra verð á sjófrystum þorski og ýsu hefur haft neikvæð áhrif og einnig hefur verð á loðnuhrognum lækkað verulega frá síðasta ári. Mikilvægt er að hafa í huga að á öðrum ársfjórðungi í fyrra voru miklar sölutekjur af loðnuhrognum sem ekki varð í ár og því situr félagið á umtalsverðum birgðum.

Þá er rétt að benda á að efnahagsaðstæður bæði hér heima og ytra, þar sem verðbólga er mikil og vextir háir, þyngdu einnig róðurinn sem sést á að fjármagnskostnaður á fyrri hluta ársins var rúmlega tvöfalt meiri en á sama tíma í fyrra. 

Á fyrri hluta ársins hélt fyrirtækið áfram að styrkja stoðir starfseminnar með fjárfestingum í traustum innviðum. Bæði var keyptur frystitogari sem hlotið hefur nafnið Þerney og þá var gengið endanlega frá kaupum Brims á 50% hlut í danska vinnslu- og sölufélaginu Polar Seafood Denmark. Brim hefur á síðustu árum lagt áherslu á að treysta alla hlekkina í virðiskeðju félagsins. Með fjárfestingunni í Polar Seafood hefur Brim styrkt markaðsstöðu sína umtalsvert og aukið möguleika félagsins á að finna afurðum sínum leið á verðmæta markaði.

Ljóst er að framundan eru tímar sem kalla á aðgát og aukið aðhald. Brim er öflugt félag sem stendur fjárhagslega sterkt og þolir ágjöf. Starfsfólk hefur marga fjöruna sopið og getur tekist á við breytingar og erfiðleika eins og vel hefur komið í ljós á síðustu árum. Við erum því full bjartsýni þó svo við búum okkur undir að syrt geti í álinn.“

Rekstur
Seldar vörur námu á 1H 2023 222 m€ samanborið við 242 m€ árið áður. Lækkun vörusölu má rekja til lítillar sölu loðnuhrogna og minni sölu mjöls og lýsis en í upphafi árs 2022 var til mikið af birgðum í mjöli og lýsi eftir veiði á loðnu í des 2021 auk minni botnfiskafla.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 45,3 m€ eða 20,4% af rekstrartekjum, en var 68,1 m€ eða 28,1% árið áður.

Fjármagnsgjöld umfram fjáreignatekjur námu 6,0 m€ á fyrri árshelmingi 2023 en voru 2,1 m€ á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður fyrir tekjuskatt á fyrri árshelmingi nam 35,6 m€, samanborið við 60,6 m€ á fyrri árshelmingi 2022. Tekjuskattur fyrir sama tímabil nam 6,3 m€, en var 11,7 m€ árið áður. Hagnaður tímabilsins varð því 29,3 m€ en var 48,9 m€ árið áður.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 955 m€ í lok 2F 2023. Þar af voru fastafjármunir 799 m€ og veltufjármunir 156 m€. Hækkun á fastafjármunum skýrist af kaupum Brims á 50% hlut í Polar Seafood Denmark A/S og kaupum á frystitogaranum Tuukkaq. Fjárhagsstaða félagins er áfram sterk og nam eigið fé 442 m€ og var eiginfjárhlutfall 46,2%, en var 48,0% í lok árs 2022. Heildarskuldir félagsins voru 513 m€ í lok fjórðungsins og hækkuðu um 23 m€ frá áramótum.

Lokið var við endurfjármögnun móður-félagsins í júní með 220 milljón evra sambankaláni.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 16 m€ á fyrri helmingi ársins, en var 41 m€ á fyrri helmingi ársins 2022. Fjárfestingar-hreyfingar voru neikvæðar um 121 m€ og fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um tæpar 34 m€. Handbært fé lækkaði því um 139 m€ og var tæpar 23 m€ í lok tímabilsins.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrra árshelmings árins 2023 (1 evra = 151,12 ísk) voru tekjur 33,6 ma. króna, EBITDA 6,8 ma. og hagnaður 4,4 ma. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2023 (1 evra = 148,7 ísk) voru eignir samtals 142 milljarðar króna, skuldir 76,3 milljarðar og eigið fé 65,7 milljarðar.

Hluthafar
Lokaverð hlutabréfa 30. júní 2023 var 81,0 kr. á hlut og var markaðsvirði félagsins þá 156 milljarðar króna. Fjöldi hluthafa var 1.912.

Samþykkt árshlutareiknings

Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 24. ágúst 2023. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards).

Kynningarfundur þann 24. ágúst 2023

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn fimmtudaginn 24. ágúst klukkan 16:30 í höfuðstöðvum félagsins að Norðurgarði 1. Guðmundur Kristjánsson forstjóri félagsins kynnir uppgjör fjórðungsins og svarar spurningum. Fundinum verður jafnframt streymt og hægt verður að fylgjast með honum á www.brim.is/streymi. Velkomið er að senda spurningar fyrir fundinn eða á meðan fundi stendur á netfangið fjarfestatengsl@brim.is. Aðsendum spurningum verður svarað í lok fundar.

Brim hf.

Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.

Fjárhagsdagatal

Þriðji ársfjórðungur                 16. nóvember 2023
Fjórði ársfjórðungur                22. febrúar 2024

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.

Viðhengi



Anhänge

Afkoma Brims hf 2F 2023 Brim Árshlutareikn 30.06.2023 Brim fjarfestakynning 2F 2023 Deloitte - staðfesting vegna skuldabréfaflokks BRIM 221026GB
FirmenprofilBrim hf.Branche: Farming & FishingWebsite: