Orkuveita Reykjavíkur fær lánshæfismat Aa2 frá Moody’s


Orkuveita Reykjavíkur fékk í dag lánshæfiseinkunnina Aa2 hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody's. Lítil eða óveruleg áhætta er í rekstri fyrirtækisins, að mati Moody's, en bent er á að vægi tekna þess af samkeppnisrekstri muni fara vaxandi. Styrkur Orkuveitunnar sjálfrar og Reykjavíkurborgar sem bakhjarls fyrirtækisins telur Moody's til helstu kosta Orkuveitunnar og lýsir henni sem alhliða veitufyrirtæki sem einbeiti sér að umhverfisvænni orkuframleiðslu úr jarðhita.

"Það er athyglisvert hvað umhverfismál og sterk ímynd Orkuveitunnar í umhverfisvænni orku og umgengni við náttúruna eru farin að skipta miklu máli í mati á öllum þáttum starfseminnar,"  segir Guðmundur Þóroddsson forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Hann bætir við: "Það er ákaflega mikilvægt og gagnlegt að hafa fengið þessa alþjóðlegu sérfræðinga til að fara í gegnum reksturinn hjá okkur og vitaskuld ánægjulegt að fá þetta góða mat á styrk fyrirtækisins, rekstri þess og áætlunum."

Guðmundur segir ástæðu þess að Orkuveitan réðst í að afla sér alþjóðlegrar lánshæfiseinkunnar vera þá, að framundan séu miklar fjárfestingar hjá fyrirtækinu. Þegar lánsfjár verði aflað til þeirra verkefna skipti miklu máli að geta leitað hagstæðustu kjara sem víðast og lánshæfismatið geri það mögulegt.

Sjö aðilar á Íslandi hafa gengist undir alþjóðlegt lánshæfismat, þar á meðal stærstu fjármálafyrirtækin. Orkuveita Reykjavíkur fær bestu einkunn þessara fyrirtækja, ef frá eru skilin þau sem njóta ríkisábyrgðar.

Moody's segir framtíðarhorfur lánshæfis Orkuveitu Reykjavíkur stöðugar.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Þóroddsson, forstjóri, 516 6000.

Fréttatilkynning Moody's er í viðhengi.


Attachments

Orkuveita Reykjavikur Moodys rating.pdf