Viðskiptatíma í Kauphöllinni breytt 26. mars


Viðskiptatíma í Kauphöllinni breytt 26. mars - Lokunartími verður sá sami og í kauphöllunum í Stokkhólmi og Helsinki

Kauphöllin hefur ákveðið að frá og með 26. mars nk. verði mörkuðum hennar lokað á sama tíma og hlutabréfamörkuðunum í Stokkhólmi og Helsinki eða laust fyrir kl. 17:30 að Mið-Evróputíma. Breytingin er hluti af aukinni samræmingu í viðskiptaumhverfi kauphallanna innan OMX samstæðunnar til hagræðis fyrir fjárfesta. Fastur lokunartími að Mið-Evróputíma þýðir að lokunartími að staðartíma breytist á milli sumars og vetrar. Að staðartíma munu markaðir Kauphallarinnar loka um hálftíma fyrr en nú er (15:30) á sumrin en um hálftíma síðar (16:30) á veturna. Viðskipti í Kauphöllinni munu hins vegar hefjast á sama tíma og nú. Samfelld viðskipti hefjast því eftir sem áður kl. 10 að staðartíma. Eftir breytinguna verður viðskiptatími í Kauphöllinni því sem hér segir: 

	Staðartími	Mið-Evróputími
	Sumar	Vetur	Sumar	Vetur
Forviðskiptatímabil	08:00	08:00	10:00	09:00
Opnunaruppboð	09:45	09:45	11:45	10:45
Samfelld viðskipti	10:00	10:00	12:00	11:00
Lokunaruppboð	15:20	16:20	17:20	17:20
Lok viðskipta	15:23	16:23	17:23	17:23
Eftirviðskiptatímabil	15:40	16:40	17:40	17:40
Lokað	16:00	17:00	18:00	18:00

"Það er ánægjulegt að kynna þessa breytingu nú þegar samþætting Kauphallarinnar við OMX er að komast á lokastig og styttist í að skráð félög verði kynnt með öðrum félögum í Nordic Exchange. Kauphöllin hefur lengi lagt áherslu á samræmingu við aðra markaði innan OMX og samstilltur lokunartími er enn eitt skrefið sem auðveldar aðgengi að íslenska markaðnum," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, um breytinguna. 

Ofangreind breyting á lokunartíma fékk afgerandi stuðning í könnun sem Kauphöllin gerði meðal kauphallaraðila. Kauphallaraðilar sem standa að baki um 90% viðskipta studdu hana og sumir vildu jafnvel ganga enn lengra og breyta upphafstíma viðskipta þannig að hann yrði ávallt hinn sami að Mið-Evróputíma. Hljómgrunnur fyrir breytingu á upphafstíma viðskipta reyndist þó ekki nægur til að réttlæta slíka breytingu að sinni.

Kauphöllin álítur þessa breytingu til heilla fyrir markaðinn. Í inngöngu Kauphallarinnar í OMX felast tækifæri fyrir útgefendur og kauphallaraðila. Sýnileiki eykst til muna og reikna má með auknum áhuga erlendra fjárfesta. Aukið samræmi í viðskiptaumhverfi Kauphallarinnar og annarra kauphalla innan OMX, þannig að sama umhverfi blasi við markaðsaðilum hvar sem þeir vilja eiga viðskipti, sýnir að íslenski markaðurinn er í reynd hluti af stærra markaðssvæði og þannig er erlendum fjárfestum auðvelduð aðkoma að markaðnum.