Nýjar hlutabréfavísitölur og stöðluð vísitöluheiti OMX tekin í notkun


Nýjar hlutabréfavísitölur og stöðluð vísitöluheiti OMX tekin í notkun á íslenska markaðinum

Frá og með 2. apríl munu skráð félög í OMX Nordic Exchange á Íslandi fara á samnorræna lista OMX. Samtímis verða íslensku félögin tekin inn í Nordic vísitölurnar. Þá munu íslensku hlutabréfavísitölurnar fá ný heiti í samræmi við stöðluð heiti OMX vísitalna.

Vísitölur samnorræna listans verða heildarvísitölur, vísitölur sem byggja á stærðarflokkun félaga á samnorræna listanum (e. segment indexes) og atvinnugeiravísitölur (e. sector indexes). Félög á samnorræna listanum eru flokkuð í stór, meðalstór og smá félög og verða vísitölur reiknaðar fyrir hvern flokk. Að auki verður hleypt af stokkunum innlendum vísitölum meðalstórra og smárra félaga sem og innlendum heildarafkomuvísitölum atvinnugeira. Allar nýjar vísitölur verða reiknaðar í íslenskum krónum (ISK) og sem vísitölur verðs og heildarafkomu. 

Heitum og auðkennum ICEX vísitalnanna verður breytt þann 2. apríl þegar þau verða samræmd stöðluðum heitum OMX-vísitalnanna. Stöðluðu vísitöluauðkennin byrja á OMX og næstu stafir vísa síðan til viðkomandi OMX kauphallar. Íslensku vísitölurnar hefjast því á OMXI þar sem "I" stendur fyrir Ísland. Meðfylgjandi er listi yfir nýju vísitölurnar og auðkenni þeirra.

ICEX15CAP
Breytingar verða á aðferð við skerðingu á vægi félaga í ICEX15CAP (OMXI15CAP) vísitölunni. Samkvæmt núverandi aðferðafræði er vægi félaga í ICEX-15 vísitölunni skert ef þess þarf í lok hvers fimmtudags og tekur þá endurskoðuð samsetning vísitölunnar gildi á mánudegi í vikunni á eftir.  Frá og með 2. apríl verður miðað við lok föstudags í stað fimmtudags og tekur endurskoðuð samsetning gildi á mánudegi eins og nú. Reglur um hámarksvægi verða óbreyttar.

Birting vísitölugilda 	
Frá og með 2. apríl verða vísitölugildi allra íslensku vísitalnanna, nema OMXI15 vísitalnanna, birt á 60 sekúndna fresti. OMXI15 vísitölurnar verða birtar í rauntíma (uppfærðar á sekúndufresti).

Yfirlit yfir vægi félaga í vísitölum
Hægt er að fá yfirlit yfir vægi félaga í öllum vísitölum bæði kvölds og morgna. Yfirlit íslensku vísitalnanna verður á hinu staðlaða OMX sniði. Ef óskað er eftir nánari upplýsingum eða áskrift að yfirlitunum skal hafa samband við OMX_MDS@omxgroup.com 
 
Upplýsingar um vísitölur á OMX á Íslandi 
Upplýsingar um atburði sem hafa áhrif á OMXI vísitölurnar verða veittar í nýjum tilkynningaflokki. Hægt er að gerast áskrifandi að tilkynningum um vísitölur OMXI með því að skrá sig sem notanda á veffanginu hér fyrir neðan og hægt er að gerast áskrifandi að "Icelandic Stock Product" flokknum undir upplýsingum um afleiðumarkað.
 
http://omxgroup.com/nordicexchange/marketnews/webcasts/subscribe/

Nánari upplýsingar veitir:
Kai Ylikangas, Senior Index Analyst							+46 8 405 62 96
Birna Margrét Olgeirsdóttir, - ICEX Index Analyst  					+354 525 28 52



Attachments

OMX Iceland Indexes.xls