- Viðræðum lokið við Merck


Stjórn Actavis hefur ákveðið að ljúka viðræðum vegna hugsanlegra kaupa
félagsins á samheitalyfjasviði lyfjafyrirtækisins Merck. 

Actavis hefur framkvæmt ítarlega áreiðanleikakönnun á Merck og skilgreint
fjölmörg áhugaverð samlegðartækifæri með félögunum. Hinsvegar telur stjórn
Actavis að það verð sem talið er að samkeppnisaðilar hafi boðið í félagið, vera
orðið mun hærra en svo að það þjóni hagsmunum hluthafa félagsins að halda áfram
samningaviðræðum. 


Róbert Wessman, forstjóri Actavis:

„Við teljum að samruni Actavis og samheitalyfjasviðs Merck hefði getað verið
áhugaverður. Við höfum hinsvegar mótað okkur skýra stefnu um að greiða ekki of
hátt verð fyrir þau félög sem við fjárfestum í og með hagsmuni hluthafa að
leiðarljósi var viðræðum okkar slitið. Áherslur okkar munu áfram beinast að því
að efla undirliggjandi starfsemi félagsins og ná metnaðarfullum markmiðum okkar
fyrir árið. Við teljum framtíðarmöguleika félagsins til áframhaldandi vaxtar og
arðsemi sérlega góða og munum áfram leita leiða til að styrkja stöðu Actavis í
hópi öflugustu samheitalyfjafyrirtækja heims.” 


Nánari upplýsingar veitir:

Halldór Kristmannsson
Innri og ytri samskipti
Sími 535 2325 / 840 3425
Póstfang: hkristmannsson@actavis.com   


Um Actavis
Actavis er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og
sölu samheitalyfja. Hjá Actavis starfa meira en 11,000 manns í yfir 30 löndum.
Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en fyrirtækið rekur auk þess þróunarsetur
og verksmiðjur í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. 


Almennur lagafyrirvari 
Upplýsingar, sem fram koma í þessari fréttatilkynningu, kunna að innihalda
forspár varðandi fjárhagsstöðu, árangur og viðskipti Actavis. Forspár og
áætlanir eru í eðli sínu tengdar áhættu og óvissu þar sem þær varða atvik og
eru háðar atburðum sem munu eiga sér stað í framtíðinni. Ýmsir þættir geta
leitt til þess að raunverulegur árangur eða þróun verði í veigamiklum atriðum
frábrugðin því sem fram kemur eða er undanskilið í þessum forspám. Þessir
þættir eru m.a. gengissveiflur, sú hætta að rannsóknir og þróun muni ekki skila
af sér vörum sem nái viðskiptalegum árangri, áhrif samkeppni, verðstýring og
verðlækkanir, hættan á að missa einkaleyfi eða vörumerkjaréttindi eða að þau
renni út, erfiðleikar við að fá eða viðhalda opinberum leyfum fyrir vörur,
hættan á verulegum skaðsemisábyrgðarkröfum eða hætta á ábyrgð vegna
umhverfistjóns.