- Stjórn Actavis mælir með nýju tilboði Novator


Novator, félag í eigu stjórnarformanns Actavis, Björgólfs Thors Björgólfssonar,
hefur í dag sent út tilkynningu þess efnis að félagið muni birta hluthöfum í
Actavis nýtt yfirtökutilboð.
 
Tilboðið verður lagt fram í evrum og hljóðar upp á 1,075 evrur á hlut í reiðufé
og boðið hluthöfum í A flokki.  Tilboðið er 19,6% hærra en gengi bréfa Actavis
daginn áður en Novator tilkynnti um tilboð sitt, sem síðan var formlega birt
hluthöfum þann 1.júní. Þá er tilboðið 10,6% hærra en fyrra tilboð Novator, sem
var 0,98 evrur á hlut.
 
Viðbótargreiðsla til hluthafa

Samkvæmt tilboði Novator munu þeir hluthafar sem samþykkja tilboðið fá
aukagreiðslu ef Novator skyldi ákveða að selja 10% eða meira af hlut sínum í
Actavis innan 12 mánaða, frá því að tilboðstíma lýkur. Nánari upplýsingar um
hugsanlega viðbótargreiðslu til hluthafa má finna í tilboðslýsingu Novator. 

Stjórn Actavis mælir með tilboðinu

Eftir nána samvinnu við óháðan ráðgjafa stjórnarinnar, JP Morgan, er niðurstaða
stjórnarinnar sú að nýtt tilboð Novator sé áhugavert fyrir hluthafa félagsins
og það því samdóma álit stjórnarinnar að mæla með tilboðinu. JP Morgan gerði
óháð mat á tilboðinu að beiðni stjórnarinnar og komst bankinn að þeirri
niðurstöðu að nýtt tilboð Novator væri sanngjarnt og ráðlagði stjórninni að
mæla með því. 

Í samræmi við 41. grein laga um verðbréfaviðskipti frá árinu 2003 hefur
jafnframt verið horft til fleiri þátta en þess verðs sem boðið hefur verið
fyrir hluti í félaginu, s.s. fjármögnunar tilboðs, framtíðaráætlana og viðhorfs
til stjórnenda, sem tilboðsgjafi gerir formlega grein fyrir í tilboði sínu. 

Þeir stjórnarmenn sem lögðu mat á tilboðið  eru Sindri Sindrason, Magnús
Þorsteinsson og Baldur Guðnason. 


Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis, um álit stjórnarinnar:
„Allt frá því að tilboð Novator var fyrst lagt fyrir hluthafa hefur stjórn
félagsins lagt mikla áherslu á að standa faglega að mati sínu. Við höfum eytt
talsverðum tíma undanfarnar vikur í skoðun á tilboðinu og átt í viðræðum við
Novator, sem ég tel að hafi skilað góðum árangri. Talsverð hækkun er frá fyrra
tilboði Novators og teljum við jákvætt fyrir hluthafa að fá hugsanlega
viðbótargreiðslu ef Actavis verður selt á hærra verði á næstu 12 mánuðum. Þá er
niðurstaða okkar í fullu samræmi við mat JP Morgan.“ 

Kynningarfundur fyrir fjárfesta

Stjórn Actavis boðar til opins kynningarfundar fyrir fjárfesta og
greiningaraðila í höfuðstöðvum félagsins, Dalshrauni 1, Hafnarfirði í dag kl.
16.30. Á fundinum mun Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis og ráðgjafar
frá JP Morgan gera grein fyrir áliti stjórnarinnar og svara spurningum. 


Frekari upplýsingar veita:

Sindri Sindrason, stjórnarmaður í Actavis
(+354) 892-4481
 
Halldór Kristmannsson
Innri og ytri samskipti Actavis 
Sími: 550 3300 / 840 3425
hkristmannsson@actavis.com