- Kaupir Behrens Fyrirtækjaráðgjöf


Icebank hefur keypt allt hlutafé í Behrens Fyrirtækjaráðgjöf og verður
starfsemi félagsins sameinuð starfsemi bankans. Kaupverð og aðrir skilmálar eru
trúnaðarmál. 

Behrens hefur á undanförnum árum haslað sér völl á sviði ráðgjafar við kaup og
sölu á fyrirtækjum á Íslandi og í Eystrasaltsríkjunum þar sem félagið hefur
verið eitt af leiðandi fyrirtækjum á því sviði. Félagið hefur einnig sinnt
verkefnum í öðrum löndum Austur-Evrópu, svo sem Tékklandi, Serbíu og Rúmeníu.
Félagið rekur starfsstöðvar í Reykjavík, í Riga í Lettlandi og Vilnius í
Litháen. Tólf manns starfa hjá félaginu, þar af sex erlendis og verða þeir
allir starfsmenn Icebank. Starfsstöðvar Behrens í Lettlandi og Litháen verða
fyrstu starfsstöðvar bankans á erlendri grundu. 

Af nýlegum verkefnum sem Behrens hefur sinnt má nefna:
•  Ráðgjöf vegna kaupa og fjármögnunar Pennans á Coppa, leiðandi smásala
   skrifstofuhúsgagna í Lettlandi, og síðar á Daily Service sem er stærsta     
   skrifstofuvörufyrirtækið í Litháen. 
•  Ráðgjöf vegna kaupa og fjármögnunar fjárfesta á einu stærsta sorp- og
   endurvinnslufyrirtæki í Eystrasaltsríkjunum. 
•  Ráðgjöf til Pennans og Tes og kaffis vegna kaupa og fjármögnunar stærstu
   kaffiverksmiðju í Eystrasaltsríkjunum. 
•  Ráðgjafi Icelandair í samningum um kaup á Latcharter í Lettlandi í fyrra og
   Travel Service í Tékklandi fyrir skemmstu. 

Af nýlegum verkefnum á Íslandi má nefna ráðgjöf til Sævars Karls Ólafssonar við
sölu á samnefndri verslun hans í Bankastræti. 

Rekstur Behrens hefur gengið vel á undanförnum árum. Þá er verkefnastaða
félagsins góð og horfur bjartar um frekari vöxt hér á landi og erlendis. Með
samruna við Icebank má ætla að starfsemin taki enn frekari kipp. 

Gert er ráð fyrir að Behrens verði hluti af samstæðu Icebank frá og með 1.
nóvember 2007 og hafa kaupin því óveruleg áhrif á rekstur Icebank samstæðunnar
á árinu 2007. Samkvæmt áætlunum félagsins er gert ráð fyrir að heildartekjur á
árinu verði um 300 m.kr.  Eðli rekstrar Behrens er einnig með þeim hætti að
lítil fjárbinding er í rekstri félagsins þannig að heildareignir Icebank
samstæðunnar aukast óverulega vegna kaupanna. 

Með kaupunum á Behrens styrkir Icebank verulega starfsemi sína á sviði
fyrirtækjaráðgjafar. Með kaupunum er einnig stigið mikilvægt skref í
útrásarstefnu bankans sem felst einkum í því að leiða saman fjárfesta á
Norðurlöndum og fjárfestingartækifæri á sviði fyrirtækjareksturs í
Eystrasaltsríkjunum og víðar í Austur-Evrópu. Hyggst bankinn opna starfsstöðvar
víðar á þessu svæði, ýmist með því að kaupa starfandi fyrirtæki eða hefja
starfsemi frá grunni. 

Stofnendur og stærstu eigendur Behrens eru Aðalsteinn Jóhannsson og Sigurður
Smári Gylfason. Við kaupin ganga þeir til liðs við Icebank og mynda kjarnann í
fyrirtækjaráðgjöf bankans. 

Nánari upplýsingar veita:
Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Icebank, í síma 540 4000.
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, í síma 540 4000.