- Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2008


Tap samstæðu SPRON 8,4 milljarðar króna eftir skatta

Sterk eiginfjárstaða 14,1% og traust aðgengi að lausafé þrátt fyrir erfiðar
markaðsaðstæður 

Góðar afkomuhorfur á öðrum ársfjórðungi



Helstu niðurstöður á fyrsta ársfjórðungi 2008:

•  Tap fyrir skatta nam 10,4 milljörðum króna en allar skráðar eignir eru færðar
   á markaðsvirði. Neikvæð þróun á hlutabréfamarkaði á fyrsta ársfjórðungi olli
   gengistapi í Exista sem nam 8,2 milljörðum króna og í veltubók sem nam 2,0
   milljarði króna 

•  Minni markaðsáhætta með sölu allra eigna úr veltubók á tímabilinu

•  Hreinar vaxtatekjur námu 830 milljónir króna og jukust um 79% frá sama
   tímabili í fyrra 

•  Hreinar þjónustutekjur námu 335 milljónum króna og jukust um 7% frá sama
   tímabili í fyrra 

•  Hreinar rekstrartekjur voru neikvæðar um 8,8 milljarða króna

•  Afkoma reiknaðs grunnrekstrar var 876 milljónir króna með 12,6% arðsemi eigin
   fjár eftir skatta
 
•  Innlánaaukning var 10% frá árslokum 2007

•  Innlán voru 53,2% af heildarútlánum til viðskiptamanna 

•  Heildarútlán til viðskiptamanna námu 176,8 milljörðum króna 
 
•  Heildareignir 254,7 milljarðar króna og hafa aukist um 13,6% frá árslokum
   2007 

•  Eigið fé nam 17,8 milljörðum króna

•  Arðgreiðsla á tímabilinu nam 1,6 milljarði króna vegna ársins 2007

•  Víkjandi lán að upphæð 5 milljarða króna tekið á fjórðungnum

•  Eiginfjárhlutfall (CAD) SPRON samstæðunnar var 14,1%

•  Endurfjármögnun lokið fyrir árið 2008 - tryggt aðgengi að lausafé fram til
   ársins 2010 


Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON:
„Afkoma SPRON á fyrsta ársfjórðungi markast af því erfiða ástandi sem verið
hefur á fjármálamörkuðum fyrstu þrjá mánuði ársins en tap félagsins er fyrst og
fremst tilkomið vegna gengistaps á hlutabréfaeign félagsins. Það versta virðist
að baki á hlutabréfamarkaði og hefur verðmæti fjárfestingaeigna félagsins
aukist það sem af er öðrum ársfjórðungi. Grunnreksturinn hefur styrkst verulega
það sem af er ári og jukust vaxtatekjur um 79% á fyrsta ársfjórðungi frá sama
tímabili í fyrra.  Félagið er vel varið fyrir aukinni verðbólgu en félagið á
miklar verðtryggðar eignir umfram skuldir. Aðstæður munu engu að síður vera
áfram krefjandi og í ljósi þess höfum við lagt höfuðáherslu á að tryggja
félaginu aðgengi að auknu lausafé og styrkja eiginfjárstöðuna.  Við höfum
tryggt félaginu lausafé sem nemur um 30 milljörðum með verðbréfun fasteignalána
hæfum til endurhverfra viðskipta, en það er gríðarlega mikilvægt í þeirri
lausafjárkreppu sem nú ríkir. Með því hefur fjármögnunarþörf félagsins verið
mætt til ársins 2010.  Annar ársfjórðungur fer vel af stað og eru horfur ágætar
miðað við þær aðstæður sem almennt ríkja á fjármálamörkuðum.“



Horfur 

Erfiðar aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum halda áfram að setja mark sitt
á rekstrarhorfur fjármálafyrirtækja hér á landi sem annars staðar. Við þessar
kringumstæður mun félagið leggja höfuðáherslu á grunnreksturinn á árinu sem
hefur styrkst umtalsvert það sem af er ári.  Félagið er vel fjármagnað og hefur
mætt fjármögnunarþörf sinni fram til 2010. Eiginfjárhlutfallið er einnig
sterkt. 

Stjórnendur félagsins telja hins vegar í ljósi þeirra aðstæðna sem eru á
markaði að ekki verði hægt að ná áður útgefnu arðsemismarkmiði félagsins sem
var 15%. Ný arðsemismarkmið verða ekki gefin út í ljósi þeirrar óvissu sem
ríkir á mörkuðum.  Að öllu samanlögðu eru horfur góðar miðað við aðstæður sem
nú ríkja á fjármálamörkuðum. 


Samþykki stjórnar og endurskoðun 

Stjórn SPRON hf. samþykkti árshlutareikning félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung
2008 á stjórnarfundi í dag 30. apríl 2008. Árshlutauppgjörið hefur verið kannað
af endurskoðendum SPRON, KPMG hf. 


Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila

Kynningarfundur verður haldinn fyrir hluthafa og markaðsaðila þann 30. apríl
kl. 17:00 á Hilton Reykjavík Nordica. Á fundinum gerir Guðmundur Hauksson
forstjóri og Valgeir M. Baldursson framkvæmdastjóri fjármálasviðs grein fyrir
afkomu félagsins og svara fyrirspurnum.  Fundinum verður varpað á netinu og
verður hægt að horfa á fundinn beint á vefsíðu félagsins www.spron.is.  Hægt er
að senda fyrirspurnir á fundinn með því að senda tölvupóst á ir@spron.is
Kynningarefni vegna fundarins verður aðgengilegt að fundinum loknum á heimasíðu
SPRON, www.spron.is og á vef Nasdaq OMX Norrænu kauphallarinnar á Íslandi
www.nasdaqomxgroup.com. 


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um uppgjörið veitir Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON í
síma 550 1213 og Valgeir M. Baldursson framkvæmdastjóri fjárhagssviðs í síma
550 1774 / 897 8939.   Frekari upplýsingar um SPRON má nálgast á heimasíðu
félagsins www.spron.is og jafnframt er hægt að senda fyrirspurnir á ir@spron.is 

Birting næstu uppgjöra

2. ársfjorðungur 2008 		30. júlí 2008
3. ársfjórðungur 2008		29. október 2008
4. ársfjórðungur 2008		4. febrúar 2009


Um SPRON:

SPRON er alhliða fjármálafyrirtæki sem veitir viðskipta- og
fjárfestingarbankaþjónustu til einstaklinga, fyrirtækja og fagfjárfesta á
höfuðborgarsvæðinu. Bankinn er leiðandi á íslenskum fjármálamarkaði hvað ánægju
viðskiptavina varðar og leggur ríka áherslu á persónulega og góða þjónustu. 

Dótturfélög SPRON eru SPRON Verðbréf, SPRON Factoring, Netbankinn og Frjálsi
Fjárfestingarbankinn. SPRON rekur 7 útibú á höfuðborgarsvæðinu og skrifstofu í
Berlin.  Hjá SPRON og dótturfélögum starfa um 280 manns. 

Attachments

arshlutareikningur spron hf  310308.pdf frettatilkynning_30_4_2008.pdf