Fyrirhuguð kaup Íbúðalánasjóðs á skuldabréfum fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði


Með lögum nr. 125/2008 var Íbúðalánasjóði heimilað að kaupa skuldabréf af
fjármálafyrirtækjum sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Í framhaldi af
setningu laganna setti félagsmálaráðherra reglugerð nr. 1081/2008 um þessi
fyrirhuguðu kaup. Þar kemur fram að endurgreiðslur fyrir skuldabréfin skuli að
jafnaði vera í formi íbúðabréfa. Í 2. gr. reglugerðar nr. 1081/2008 kemur fram
að forsenda þess að Íbúðalánasjóður gangi til samninga við fjármálastofnun um
kaup á skuldabréfum sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði sé að viðkomandi
fjármálastofnun hafi fyrst óskað eftir slíkum samningum. Á fundi sínum 8.
janúar s.l. samþykkti stjórn Íbúðalánasjóðs reglur um kaup á skuldabréfum
fjármálafyrirtækja og hefur félagsmálaráðherra staðfest þær reglur og þær verið
birtar í Stjórnartíðindum. 

Nokkrar umsóknir hafa nú þegar borist til Íbúðalánasjóðs vegna slíkra kaupa en
óljóst er á þessari stundu hver heildarfjárhæð kaupanna verður. Vegna þessara
fyrirhugaðra kaupa gerði Íbúðalánasjóður, við gerð fjárlaga fyrir árið 2009,
tillögu um að hann fái heimildir til útgáfu íbúðabréfa til kaupa á skuldabréfum
fyrir allt að 100 milljarða króna í þessu skyni. Var í greinargerð með
fjárlagatillögum Íbúðalánasjóðs gerður fyrirvari við þessa fjárhæð þar sem
nokkur óvissa ríkir um heildarfjárhæð skuldabréfa sem Íbúðalánasjóði kunna að
vera boðin til kaups. Því er ljóst að kaupin geta orðið minni eða meiri en
fjárlögin gera ráð fyrir. 

Íbúðalánasjóður vinnur nú að því að ganga frá samningum vegna þeirra umsókna
sem þegar hafa borist sjóðnum og munu upplýsingar þess efnis verða tilkynntar
til markaðsaðila þegar þær liggja fyrir.