Skilanefnd Glitnis hefur með samkomulagi við Milestone ehf. í dag gengið að veðum í öllu hlutafé í Moderna Finance AB dótturfélagi Milestone ehf. í Svíþjóð. Með þessu færast yfirráð yfir íslenskum dótturfélögum Moderna Finance, Sjóvá, Askar Capital og Avant, til skilanefndar Glitnis. Áfram er unnið að endurskipulagningu félaganna og er samningurinn við skilanefndina liður í að tryggja rekstur þeirra til frambúðar. Samningurinn mun ekki hafa áhrif á daglegan rekstur íslensku félaganna. Samningurinn hefur ekki áhrif á söluferlið sem var hafið á erlendum eignum Moderna Finance AB. Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis segir að yfirtaka á hlutafé Moderna Finance AB sé eðlilegt framhald á vinnu skilanefndarinnar, eftir að áætlanir um fjárhagslega endurskipulagningu Moderna Finance samstæðunnar náðu ekki fram að ganga. Nánari upplýsingar: Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis: 898 2994