Fjárhagslegri endurskipulagningu að ljúka - hlutafé aukið um EUR 63,7 milljónir



Eignarhaldsfélagið Farice ehf. og dótturfélag þess, Farice hf., hafa síðustu mánuði unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu félaganna í samvinnu stærstu kröfuhafa þeirra og hluthafa. Samkomulag hefur náðst um útlínur slíkrar endurskipulagningar og er stefnt að því að henni ljúki eigi síðar en þann 16. desember n.k.

Þann 10. desember 2010 héldu Eignarhaldsfélagið Farice ehf. og Farice hf. bæði hluthafafundi. Á hluthafafundi Farice hf. var samþykktur samruni félagsins við móðurfélag þess, Eignarhaldsfélagið Farice ehf. Á hluthafafundi Eignarhaldsfélagsins Farice ehf. var samruni félaganna einnig samþykktur með tilheyrandi hækkun hlutafjár eftir að hlutafé félagsins hafði verið lækkað til að mæta tapi. Þá var nafni sameinaðs félags breytt í Farice ehf., auk þess sem skerpt var á tilgangi félagsins.

Stærstu hluthafar Farice ehf., íslenska ríkið og Landsvirkjun, leggja félaginu til nýtt hlutafé í A-flokki að fjárhæð EUR 11 milljónir. Þá hafa stærstu óveðtryggðu kröfuhafar félagsins samþykkt sem hluta af fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins að breyta þeim kröfum í hluti í B-flokki í félaginu samtals að upphæð EUR 52,7 milljónir, sem veitir þeim m.a. forgang á greiðslur frá félaginu umfram hluthafa í A-flokki. Hlutafé sameinaðs félags verður því aukið um samtals EUR 63,7 milljónir og mun eftir endurskipulagninguna nema um EUR 75,5 milljónum.

Veðtryggðir lánveitendur Farice ehf., að undanskildum skuldabréfaflokki EFAR 09 1 sem verður óbreyttur, hafa samþykkt að endurfjármagna skuldir félagsins. Heildarskuldir að meðtöldum skuldabréfaflokknum munu eftir endurskipulagninguna nema um EUR 56,5 milljónum.

Aukning hlutafjár og endurfjármögnun skulda er háð endanlegri skjalagerð lánasamninga, sem fyrr greinir er gert ráð fyrir að ljúki eigi síðar en 16. desember n.k.