Nýir sviðsstjórar hjá Íbúðalánasjóði

Í október sl. var ákveðið að gera breytingar á skipulagi Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn skiptist nú í fjögur meginsvið, - fjármálasvið, eignasvið, fyrirtækjasvið og einstaklingssvið. Þeim til viðbótar eru þrjú stoðsvið, - upplýsingatæknisvið, þjónustu- og markaðssvið og lögfræðisvið. Auglýstar voru stöður sviðsstjóra meginsviðanna fjögurra og hefur nú verið skipað í þrjár þeirra.


Ágúst Kr. Björnsson, sviðsstjóri eignasviðs, er með BSc. gráðu í byggingatæknifræði frá Tækniskóla Íslands (1985). Ágúst hefur langa og yfirgripsmikla stjórnunarreynslu tengda fasteignum, af bygginga- og mannvirkjagerð, eignaumsýslu og rekstri fasteignafélaga, auk reynslu af opinberri stjórnsýslu og skipulags- og landþróunarmálum. Á árunum 2004 til 2009 starfaði hann hjá dótturfélögum Landic Property sem framkvæmdastjóri Akralands ehf. og um tíma sem framkvæmdastjóri 101 Skuggahverfis hf. Félögin sáu um uppbyggingu Akrahverfis í Garðabæ og byggingu 200 íbúða á Kveldúlfsreitnum í Reykjavík. Árin 1995 til 2004 starfaði hann sem sveitarstjóri, lengst af  í Súðavíkurhreppi þar sem hann sá um endurreisn eftir snjóflóðin, uppkaup fasteigna og samskipti við opinber yfirvöld.  Áður starfaði Ágúst m.a. sem verkefnisstjóri hjá verktakafyrirtækinu Hagvirki hf.  Ágúst sat í stjórn Frosta hf. (síðar Hraðfrystihússins Gunnvarar) frá 1996-2002 og í stjórn Sparisjóðs Súðavíkur 1996-1999, auk þess sem  hann hefur starfað í fjölda samstarfsnefnda á vegum sveitarfélaga. 

Guðrún Soffía Guðmundsdóttir, sviðsstjóri einstaklingssviðs, er  viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri (2008).  Hún hefur víðtæka þekkingu og reynslu af verkefnum Íbúðalánasjóðs, enda hefur hún starfað hjá sjóðnum og áður Húsnæðisstofnun ríkisins frá 1996.  Guðrún Soffía hefur starfað á flestum sviðum sjóðsins eða við innheimtu, á rekstrarsviði, fjármálasviði og þjónustusviði lána, nú síðast sem aðstoðarsviðsstjóri. Guðrún Soffía er gift Bjarka Gunnarssyni og eiga þau þrjú börn.

Úlfar Þór Indriðason,  sviðsstjóri fyrirtækjasviðs,  er viðskiptafræðingur, cand. oecon. frá Háskóla Íslands (1983) auk þess sem hann hefur sótt fjölda styttri námskeiða m.a. á sviði verkefnastjórnunar, áhættustýringar, samningatækni og verðlagningar fyrirtækja. Síðastliðinn sjö ár hefur Úlfar starfað hjá Landsbanka Íslands, síðar NBI, einkum á sviði útlána og fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja, lengst af sem forstöðumaður sértækra útlána eða 2004-2008. Þá starfaði hann um tíma sem rekstrarráðgjafi erlendis við stefnumótun og fyrirtækjakaup. Á árunum 1992-2002 var hann útibússtjóri hjá Búnaðarbanka Íslands, fyrst á Selfossi og síðar í Kópavogi. Sem útibússtjóri bar Úlfar ábyrgð á rekstri og starfsmannastjórnun útibúsins, eignastýringu, eignaumsýslu, markaðsmálun, vanskilainnheimtu og fyrirtækjaráðgjöf. Árin 1988-1992 var Úlfar forstöðumaður verðbréfaviðskipta Búnaðarbanka Íslands. Úlfar er kvæntur Þórdísi Wíum og eiga þau fjögur börn.