Eyrir Invest selur öll hlutabréf sín í Össuri


Eyrir Invest hefur selt alla eignarhluti sína í Össuri hf. á genginu ISK 193 sem jafngildir DKK 8,75 á hlut.  Fyrir viðskiptin átti Eyrir 46,5 milljónir hluta í Össuri eða sem jafngildir 10,2% af heildarhlutafé en á eftir viðskiptin engan hlut í félaginu. Tilgangur sölunnar er að styrkja fjárhag Eyris enn frekar og losa um fjármuni til að beina í ný verkefni þar sem Eyrir verður leiðandi fjárfestir.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyrir Invest:

„Eyrir hefur verið hluthafi í Össuri frá 2004 og stutt dyggilega við vöxt félagsins á undanförnum árum, en lengst af hefur Eyrir átt 20-25% hlut Össuri.  Fjárfestingin í Össuri hefur verið farsæl, velta Össurar á síðustu 7 árum hefur þrefaldast og arðsemi farið vaxandi.  Össur er nú markaðs- og tæknileiðtogi á sínu sviði á heimsvísu.  Stjórnendur og starfsfólk Össurar eiga mikið lof skilið fyrir þann árangur sem þegar hefur náðst og teljum við framtíð félagsins bjarta.  

Fjárhagslegur styrkleiki Eyris er mikill og erum við að kanna nýja og spennandi fjárfestingarkosti hér á landi þar sem við verðum leiðandi fjárfestar auk þess sem rekstrarfélög okkar eru að auka umsvif sín á heimsvísu með innri og ytri vexti.“

Efnahagur Eyris Invest er traustur.  Í árslok 2010 var bókfært eigið fé Eyris 187 milljónir evra eða um 31 milljarður ISK og eiginfjárhlutfall 44%, að auki er verulegur óinnleystur hagnaður af skráðum hlutabréfum í eigu Eyris og því er nettó virði eigna hærra en bókfært eigið fé.  Eyrir Invest er langtímafjárfestir sem styður alþjóðleg iðnfyriræki og sprota til vaxtar.  Lykileignir Eyris eru í iðnfyrirtækjunum  Marel, Fokker-flugiðnaði og Stork-orkuiðnaði auk ýmissa sprotafjárfestinga.