Ársreikningur Kópavogsbæjar 2011

Veltufé frá rekstri 2,6 milljarðar


Niðurgreiðsla skulda Kópavogsbæjar umfram lántökur var rúmlega 1.650 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársreikningi Kópavogsbæjar fyrir árið 2011. Hann var lagður fram á bæjarráðsfundi í morgun og samþykktur til afgreiðslu í bæjarstjórn. Fyrri umræða er væntanleg 24. apríl.

Í langtímaáætlunum er stefnt að því að greiða niður skuldir bæjarins um einn milljarð á ári á næstu árum og náðist það markmið á síðasta ári og vel það. Annað markmið er að veltufé frá rekstri verði að minnsta kosti á bilinu 1,5 til 2 milljarðar á ári. Það náðist einnig en veltufé frá rekstri samstæðu Kópavogsbæjar var um  2,6 milljarðar.

Í ársreikningnum kemur fram að rekstrarafkoma samstæðu hafi verið neikvæð um 751 milljón króna. Neikvæð afkoma skýrist fyrst og fremst af reiknuðum stærðum eins og gengistapi sem var 523 milljónir, meiri verðbólgu en áætlað var og aukinni gjaldfærslu á lífeyrisskuldbindingum.

Fleiri lóðum var á síðasta ári úthlutað en skilað og er það viðsnúningur frá síðustu árum. Hagnaður af lóðaúthlutunum nam 335,3 milljónum króna.

Íbúum í Kópavogi heldur áfram að fjölga og voru þeir komnir upp í 31.139 í desember 2011. Er það um 1,4% fjölgun frá fyrra ári.

 

Nánari upplýsingar: Arna Schram upplýsingafulltrúi í síma: 696 0663


Attachments