Ársreikningur Fjarðabyggðar 2011 tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn


Fimmtudaginn 12. apríl 2012 fer fram fyrri umræða í bæjarstjórn Fjarðabyggðar um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2011. Ársreikningurinn hefur verið áritaður af bæjarráði og bæjarstjóra. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 26. apríl næstkomandi.

Rekstrarniðurstaða, án afskrifta og fjármagnsliða, hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð sem nam 1.134 millj. kr. á árinu. Þar af var rekstrarniðurstaða í A hluta 380 millj. kr. EBITDA framlegð nam 24,6% hjá samstæðu og 11,5% í A hluta.

Rekstrarniðurstaða ársins hjá samstæðu A og B hluta var jákvæð um 108 millj. kr. og rekstrarniðurstaða A hluta neikvæð um 296 millj. kr.

Rekstrartekjur, samstæðu A og B hluta sveitarfélagsins, námu samtals 4.618 millj. kr. en þar af námu rekstrartekjur A hluta 3.319 millj. kr. Til samanburðar voru rekstrartekjur samstæðu 4.354 millj. kr. árið 2010. Aukning í rekstrartekjum nemur því 6,1% á milli ára. Aukning er 11,2% í útsvari og fasteignasköttum, -13,6% í framlögum jöfnunarsjóðs og 4,6% í öðrum tekjum.

Rekstrargjöld, að meðtöldum afskriftum, í samstæðu A og B hluta námu 3.865 millj. kr. og þar af voru rekstrargjöld A hluta 3.152 millj. kr. Rekstrargjöld samstæðu hækka um 7,8% á milli ára og um 6,1% í A hluta.

Hækkun launa og launatengdra gjalda í samstæðu nam 7,2% eða um 140 millj. kr. Af þessari hækkun nam breyting lífeyrisskuldbindingar 52 millj. kr. Að teknu tilliti til áhrifa kjarahækkana og lífeyrisskuldbindinga lækkar launakostnaður lítillega á milli ára. Annar rekstarkostnaður samstæðu hækkar um 11,4%. Í A hluta nam hækkun launa og launatengdra gjalda 6,1% og annars rekstrarkostnaðar um 7,3%. Að teknu tilliti til aukins kostnaður vegna tilfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011 og verðlagsþróunar á milli ára, lækkar annar rekstrarkostnaður í A hluta um 2,1% að raungildi frá fyrra ári.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur, í samstæðu A og B hluta, námu 641 millj. kr. samanborið við 126 millj. kr. árið 2010. Áhrif verðlagsþróunar til hækkunar á höfuðstól verðtryggðra lána nam 319 millj. kr. á árinu og áhrif vegna óhagstæðrar gengisþróunar til hækkunar á höfuðstól gengistryggðra lána 106 millj. kr. Til samanburðar voru áhrif verðlagsþróunar til hækkunar á höfuðstól verðtryggðra lána 176 millj. kr. á árinu 2010  og gengishagnaður vegna langtímalána 347 millj. kr. Samtals var reiknaður gengismunur samstæðu á árinu 2011 jákvæður um 41 millj. kr., en þar af eru 147 millj. kr. tekjufærsla vegna höfuðsstólslækkunar samhliða breytingu lána úr erlendum myntum í íslenskar krónur.

Fjárfesting umfram sölu eigna, í samstæðu A og B hluta, nam samtals 263 millj. kr. á árinu 2011 samanborið við 152 millj. kr. árið áður. Afborganir langtímalána námu 468 millj. kr. á árinu og tekin voru ný langtímalán að fjárhæð 30 millj. kr. Handbært fé hækkaði um 260 millj. kr. á árinu og nam 845 millj. kr. í árslok 2011.

Eignir sveitarfélagsins voru í lok árs 2011 samtals að fjárhæð 11.038 millj. kr., þar af 9.632 millj. kr. fastafjármunir. Á meðal fastafjármuna eru færðar leigðar eignir samtals að fjárhæð 1.141 millj. kr. Langtímaskuldir við lánastofnanir eru 6.412 millj. kr., leiguskuldir 1.986 millj. kr., skammtímaskuldir 1.062 millj. kr. og lífeyrisskuldbinding 1.566 millj. kr.

Eigið fé samstæðu var 11 millj. kr. í árslok 2011 samanborið við 136 millj. kr. í árslok 2010. Eigið fé A hluta var neikvætt um 959 millj. kr. í árslok 2011 samanborið við neikvætt eigið fé að fjárhæð 430 millj. kr. í árslok 2010. Breyting á eigin fé skýrist af rekstrarniðurstöðu ársins og endurmati lóða og lendna að fjárhæð 233 millj. kr.

Nánari upplýsingar veita Páll Björgvin Guðmundson bæjarstjóri og Björgvin Valdimarsson fjármálastjóri í síma 470-9000.


Attachments