Íbúðalánasjóður stendur ekki frammi fyrir greiðslufalli


Fréttir og fullyrðingar um að Íbúðalánasjóður standi frammi fyrir greiðslufalli á skuldbindingum sínum eiga sér ekki efnislega stoð í efnahag, lausafjárstöðu eða rekstri sjóðsins. Vegna fréttaflutnings miðvikudaginn 17. október um málefni Íbúðalánasjóðs er mjög mikilvægt að eftirfarandi atriði komi fram.

 

Íbúðalánasjóður stendur ekki frammi fyrir greiðslufalli með skuldbindingar sínar. Mikilvægt er að draga ekki ályktanir um lausafjárstöðu sjóðsins og greiðslugetu út frá eiginfjárhlutfalli sjóðsins.

 

Lausafjárstaða og greiðslugeta

Íbúðalánasjóður er í mjög sterkri stöðu til að mæta afborgunum lána sinna. Sjóðurinn hefur um 54 milljarða í lausu fé og hefur því ekki þurft að sækja sér fjármagn á markað síðan í janúar 2012.

 

Eiginfjárstaða

  • Íbúðalánasjóður þarf um 12-14 milljarða króna til að ná lögbundnu  eiginfjárhlutfalli.
  • Beðið er ákvörðunar stjórnvalda með eiginfjárframlag. Sú bið hefur engin áhrif á getu sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar
  • Ákvörðun stjórnvalda um að auka eigið fé sjóðsins snýst um afskriftaþörf  vegna niðurfærslu lána og hefur ekkert með greiðslugetu sjóðsins að gera.
  • Rétt er að minna á að ríkisábyrgð er á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs.