Árshlutareikningur Reykjaneshafnar fyrstu sex mánuði ársins 2014


Óendurskoðaður árshlutareikningur Reykjaneshafnar fyrir tímabilið janúar til júní 2014 hefur verið lagður fram í Atvinnu- og hafnaráði Reykjanesbæjar og bæjarráði Reykjanesbæjar.

Hjá Reykjaneshöfn er rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði jákvæð um 13 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 1 mkr. Rekstrarniðurstaða eftir fjármagnsliði er neikvæð um 271 mkr en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 441 mkr. Helsta frávik frá áætlun liggur í fjármagns-gjöldum langtímaskulda.

Eignir hafnarinnar eru bókfærðar á 2.876 mkr, þar af eru veltufjármunir 65 mkr. Skuldir hafnarinnar með lífeyrisskuldbindingum og leiguskuldbindingum eru 7.618 mkr, þar af eru skammtímaskuldir 638 mkr. Eigið fé er neikvætt um 4.742 mkr.

Hreint veltufé til reksturs er um 96 mkr. Handbært fé samstæðu til rekstrar er um 106 mkr.

Rekstrarniðurstaða Reykjaneshafar er neikvæð um 271 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 441 mkr og er niðurstaðan því betri um 170 mkr. Betri rekstrarniðurstaða frá áætlun má rekja til hærri tekna og lægri fjármagnsgjalda langtímaskulda.

Reykjaneshöfn er að fullu í eigu Reykjanesbæjar, en rekstur hennar er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum og framlagi Reykjanesbæjar í formi víkandi láns.