Hallalaus rekstur RÚV árið 2015


Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. vill, að gefnu tilefni, árétta að rekstur félagsins á árinu 2015 er hallalaus eins og að var stefnt. Jákvæð niðurstaða er af rekstri félagsins. Einskiptis söluhagnaður vegna byggingarréttar félagsins við Efstaleiti kemur til viðbótar jákvæðri rekstrarniðurstöðu. 

Rekstraráætlun hafði verið unnin fyrir árið 2016 sem byggði á forsendum um óbreytt útvarpsgjald eins og fyrirætlanir mennta- og menningarmálaráðherra gerðu ráð fyrir. Niðurstaða fjárlaga var önnur og brást stjórn Ríkisútvarpsins við með því að samþykkja uppfærða rekstraráætlun fyrir árið 2016 á stjórnarfundi Ríkisútvarpsins ohf. sem haldinn var 21. desember sl. Helstu forsendur rekstraráætlunar gera ráð fyrir hallalausum rekstri félagsins á árinu 2016 eins og raunin var á síðastliðnu ári. Forsendur rekstraráætlunar eru í samræmi við fjárlög 2016, m.a. lækkað útvarpsgjald, og gera ráð fyrir kostnaðarauka vegna kjarasamningshækkana umfram verðlag. Í áætlun er enn óútfærð hagræðingarkrafa en gert er ráð fyrir að hún verði útfærð á næstu vikum.