Yfirlýsing peningastefnunefndar - Vextir óbreyttir


"Þessi tilkynning er upprunalega birt á vefsetri Seðlabanka Íslands. Hún hefur ekki verið birt opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu af hálfu Seðlabanka Íslands, sbr. skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Vísað er til vefseturs Seðlabanka Íslands http://sedlabanki.is

 

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,75%.

Samkvæmt áætlun Hagstofu Íslands var hagvöxtur í fyrra 4% sem er mjög nærri febrúarspá Seðlabankans. Vísbendingar það sem af er ári gefa jafnframt til kynna að horfur fyrir þetta ár hafi lítið breyst og að útlit sé einnig fyrir kröftugan hagvöxt á næstu misserum.

Verðbólga mældist 2,2% í febrúar og hefur aukist um ríflega 1 prósentu frá því sem hún var fyrir ári. Sem fyrr vegast þar á innlendur verðbólguþrýstingur og innflutt verðhjöðnun á alþjóðlegum vörumörkuðum. Áfram er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram eftir ári en horfur eru óvissar, m.a. varðandi innflutningsverðlag.

Alþjóðleg verðlagsþróun og sterkari króna hafa veitt svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni.