Fjármál Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar.


Vísað er til tilkynninga Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar um viðræður við kröfuhafa um endurskipulagningu fjárhags Reykjanesbæjar og stofnana hans. Eins og tilkynnt var þann 7. apríl 2016 samþykkti bæjarráð Reykjanesbæjar að bera undir kröfuhafa drög að samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu. Í tilkynningunni kom einnig fram að ef samkomulag næðist ekki fyrir 15. apríl sl. yrði óskað eftir því að sveitarfélaginu væri skipuð fjárhaldsstjórn samkvæmt ákvæðum sveitastjórnarlaga. Með tilkynningu þann 14. apríl sl. var tilkynnt um að samkomulag myndi ekki nást þar sem minnihluti kröfuhafa hefði synjað samkomulagi. Reykjaneshöfn birti síðan tilkynningu 15. apríl sl. þar sem fram kom að óbreyttu væri fyrirséð að til greiðslufalls á skuldbindingum Reykjaneshafnar kæmi eftir 15. apríl 2016.

Reykjanesbær og Reykjaneshöfn hafa nú sammælst með fulltrúum lífeyrissjóða, sem eru kröfuhafar Reykjaneshafnar og synjað höfðu samkomulaginu, að láta reyna til þrautar á næstu dögum hvort grundvöllur sé fyrir samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnana hans.

Afgreiðslu tillögu bæjarstjórnar um tilkynningu til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga sem var á dagskrá bæjarstjórnarfundar Reykjanesbæjar kl. 17 í dag hefur því verið frestað til næsta bæjarstjórnarfundar sem verður hinn 3. maí nk.

Í kjölfarið verður leitast við að óska eftir greiðslufresti og kyrrstöðutímabili frá kröfuhöfum Reykjaneshafnar og Reykjanesbæjar meðan viðræðurnar standa yfir.