HS Orka og Jarðboranir gera samning um djúpborun á Reykjanesi


HS Orka og Jarðboranir hafa undirritað  samning um borun allt að 5 km djúprar háhitaholu á Reykjanesi. Til verksins munu jarðboranir nota stærsta bor landsins, jarðborinn Þór. Stefnt er að því að holan verði dýpsta og heitasta vinnsluhola jarðvarma á Íslandi með hita allt að 500°C  hitastigi.  Ráðgert er að borun holunnar fari fram á síðari hluta þessa árs.

HS Orka leggur til verksins holu 15 á Reykjanesi sem er  2,5 kílómetra djúp og er ætlunin að dýpka holuna í allt að 5 kílómetra. Samningurinn er hluti af öðrum áfanga íslenska djúpborunarverkefnisins (IDDP-2) en áður hefur verið reynt við djúpborun á Kröflusvæðinu.  Tilgangur verkefnisins er að sýna fram á að framleiða megi orku úr djúplægum jarðhitakerfum sem gæti aukið orkuframleiðslu háhitasvæða umtalsvert og þar með dregið úr landrýmisþörf orkuvinnslunnar.. Vinnslutækni verkefnisins ræðst af því hvernig jarðhitavökvi finnst á 4-5 km dýpi. Ef efnasamsetningin reynist viðráðanleg og unnt verður að vinna yfirhitaða orkuríka gufu beint upp úr djúpu borholunni er það fyrsti valkostur sem mun þar með auka orkuvinnslu á Reykjanesi.  Slík orkuvinnsla mun leiða til aukinnar nýtingar auðlindar og landsvæðis og draga úr umhverfisáhrifum vinnslunnar.  Ef efnasamsetning vökvans reynist hins vegar of erfið, verður vatni frá yfirborði dælt ofan í holuna til að efla orkuvinnslu úr grynnri nærliggjandi holum. Við borun holunnar, prófanir, mælingar og vinnslu verður prófuð og nýtt ný tækni og búnaður, í samstarfi við bæði innlenda og erlenda aðila.

HS Orka leiðir verkefnið í samstarfi við norska olíufélagið Statoil, auk annarra fyrirtækja innan IDDP samstarfsins. Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) fékk nýlega styrk frá rannsóknaráætlun Evrópusambandsins uppá 1,3 milljarða króna til verkefnisins og er HS Orka leiðandi aðili í þessum hluta verkefnisins. Auk HS Orku eru Ísor, Landsvirkjun, Georg, Statoil ásamt fleiri Evrópskum fyrirtækjum þátttakendur í verkefninu.

Íslenska djúpborunarverkefnið (IDDP) hefur verið starfrækt í um 15 ár. Að IDDP standa íslensku orkufyrirtækin, HS Orka , Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, ásamt Orkustofnun og Statoil.