Fljótsdalshérað - Fjárhagsáætlun 2017 – 2020


Tillaga fjárhagsáætlunar Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2017 ásamt 3ja ára áætlun fyrir 2018-2020 var lögð fram til seinni umræðu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs á fundi þann 16. nóvember 2016 og er byggð á grunni þess fjárhagsramma sem nefndum  sveitarfélagsins var ætlað að laga sig að í endanlegri áætlanagerð. 

 

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar 2017-2020

  • Rekstarafkoma A og B hluta samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er jákvæð um 221 millj. kr.
     
  • Skatttekjur hækka um 177 millj. kr. á milli áranna 2016 og 2017 og nema 3.143 millj. kr. sem er 6% hækkun.
     
  • Útsvarstekjur nema 1.768 millj. kr. og hækka um 6,7% miðað við útkomuspá fyrir árið 2016.   
     
  • Áætlað er að fasteignaskattur nemi um 349 millj. kr. sem er 5,5% hækkun frá 2016.
     
  • Framlög Jöfnunarsjóðs  nema 1.066 millj. kr. sem er 4,6% hækkun frá áætlaðri útkomu 2016. Hækkun frá fyrri umræðu nemur 46 millj. kr. og er í samræmi við nýja áætlun Jöfnunarsjóðs.
     
  • Innri leiga á málaflokka í rammaáætlun hækkar almennt um 1,7% frá áætlun ársins 2016.
     
  • Útkomuspá launa fyrir árið 2016 er áætluð um 1.928 millj. kr. en verða um 2.088 millj. kr. á árinu 2017 sem gerir um 8,3% hækkun á milli ára.  Hækkun frá fyrri umræðu nemur rúmum 43 millj. kr.
     
  • Í áætlun á launakostnaði er miðað við að boðaðar hækkanir á mótframlögum í lífeyrissjóði LSR og Brú taki gildi í ársbyrjun 2017 og nemur sú hækkun um 43 millj. kr. frá þeirri áætlun sem lögð var fram við fyrri umræðu. 
     
  • Framlegð (EBITDA) í A hluta er áætluð 612 millj. kr. eða 16,6% og í samstæðu A og B hluta er framlegð áætluð 894  millj. kr. eða 22%.
     
  • Áætlun fjármagnsliða tekur töluverðum breytingum frá fyrri umræðu til samræmis við nýja verbólguspá Hagstofu Íslands frá því í nóv 2016 þar sem spáð er 2,4% verðbólgu á árinu 2017.
     
  • Skuldaviðmið A hluta er áætlað 144% í árslok 2016 og 98% í árslok 2020.
     
  • Skuldaviðmið samstæðu A og B hluta er áætlað 185% í árslok 2016 og 130,8% í árslok 2020 og mun því aðlögunaráætlun sem samþykkt var árið 2012 ganga eftir og markmiðum hennar að fullu náð á árinu 2019
     
  • Á tímabilinu 2017 til 2020 er gert ráð fyrir 80 millj. kr. lántökum í B hluta vegna veituframkvæmda.
     
  • Á tímabilinu 2017 til 2020 lækka skuldir og skuldbindingar um 1.074 millj. kr.
     
  • Á tímabilinu 2017 til 2020 nemur veltufé frá rekstri 3.172 millj. kr. og af þeim fjármunum verður 2.062 millj. kr. varið til afborgana af lánum.
     
  • Jákvæð rekstarafkoma er öll árin 2017-2020

 

Önnur atriði sem einkenna áætlun 2017:

Ef farið er í gegnum frekari greiningu á þeirri áætlun sem hér er lögð fram eru kannski nokkur almenn atriði sem vert er að geta:

 

  1. Fjárfestingar ársins 2017 í Eignasjóði eru áætlaðar 113 millj.  Hækkun um 25 millj. kr. frá samþykktri 3ja ára áætlun fyrr í vetur í ljósi hugmynda um kaup á bíl fyrir ferðaþjónustu fatlaðra og vegna viljayfirlýsingar við Hött um byggingu fimleikahúss. 
     
  2. Ekki er gert ráð fyrir lántökum á árinu 2017.
     
  3. Ekki er gert ráð fyrir sölu eigna í samþykktri 3ja ára áætlun.
     
  4. Hækkað er aftur framlag til viðhalds gatna upp í 28 millj. kr. samanborið við 17 millj. kr. á árinu 2016.
     
  5. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Fljótsdalshéraði á árinu 2017 og eru útgjöld umfram tekjur áætluð um 20 millj. kr.
     
  6. Gert er ráð fyrir endurnýjun Tjarnarbrautar frá gatnamótum Skógarlanda að gatnamótum Tjarnarlanda og er hluti af fjárfestingaáætlun.
     
  7. Ekki liggur fyrir úrskurður yfirskattanefndar á kæru Landsvirkjunar þess efnis að Fljótsdalshérað skuli leggja á fasteignaskatt skv A gjaldstofni eða 0,5% í stað 1,65%.  En sveitarfélagið vill leggja á fasteignaskatt miðað við að vatnréttindi Kárahnjúka séu skilgreind í atvinnuskyni.  Munar þarna um 20 millj. kr. í hvorum flokki gjaldstofninn er og skiptir sveitarfélagið því verulegu máli hvernig því máli lyktar.

 

Nánari upplýsingar veitir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.


Attachments

Fjárhagsáætlun 2017-2020 seinni umræða.pdf