Hafnarfjarðarkaupstaður: ársreikningur


Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2016

Skuldaviðmið undir 150%

Rekstrarniðurstaða ársins fyrir óreglulega liði var jákvæð um 754 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 361 milljónir króna. Í rekstrarreikning er færð fjárhæð 215 milljónir króna undir óreglulega liði en hún er vegna greiðslu á lífeyrisskuldbindingu vegna fyrrum starfsmanna  Sparisjóðs Hafnarfjarðar/Byrs sem áður var talið að myndi innheimtast hjá þrotabúi Byrs. Rekstrarniðurstaða verður því jákvæð um 538 milljónir króna.

Helstu frávik voru að skatttekjur voru 657 milljónum króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og hækkun lífeyrisskuldbindinga var 776 milljónum krónum hærri en áætlanir, auk 215 milljóna króna hækkunar sem var færð meðal óreglulegra liða. Fjármagnsliðir voru um 732 milljónum krónum lægri en áætlun gerði ráð fyrir vegna lægri verðbóta og niðurgreiðslu skulda. Rekstur málaflokka var í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstrinum og annar rekstrarkostnaður helst nánast óbreyttur frá fyrra ári eða rúmlega 7,4 milljarðar króna. Veltufé frá rekstri styrktist verulega og nam 3.634 milljónum króna eða 15,7% af heildartekjum.

Greiddar voru afborganir alls 2,1 milljarður króna eða um 870 milljónir króna umfram afborganir samkvæmt lánasamningum. Engin ný lán voru tekin á árinu sem er í fyrsta sinn síðan a.m.k. árið 1992. Fjárhagsstaða Hafnarfjarðarbæjar hefur því styrkst verulega á árinu og er skuldaviðmið í árslok 2016 komið í 148% og þar með undir 150% skuldaviðmið samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Frá árinu 2012 hefur Hafnarfjarðarbær verið undir sérstöku eftirliti eftirlitsnefndar sveitarfélaga en samkvæmt aðlögunaráætlun var gert ráð fyrir að þetta hlutfall yrði komið undir 150% í árslok 2018. Þar sem fjárhagslegum viðmiðum hefur verið náð á sveitarfélagið nú að losna undan eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Fjárfestingar á árinu 2016 námu 1.358 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 1.895 milljónum króna. Meðal helstu framkvæmda var verklok á byggingu nýs leikskóla að Bjarkavöllum fyrir um 353 milljónir króna. Bygging nýs skóla í Skarðshlíð og bygging hjúkrunarheimilis sem áætlað var að hæfust á árinu 2016 munu hefjast árið 2017. Kaupverð fasteigna nam 215 milljónum króna og framkvæmdir við gatnagerð nam 393 milljónum króna. Tekjur vegna gatnagerðagjalda og byggingaréttar námu 1.339 milljónum króna en gatnagerðagjöld eru færð til lækkunar á framkvæmdakostnaði þar til verki lýkur.

Heildareignir í lok árs námu samtals 48.302 milljónum króna og hafa þær lækkað um 178 milljónir milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 39.157 milljónum króna og hafa lækkað um 1.026 milljónir króna á milli ára þrátt fyrir 1.417 milljóna króna hækkun lífeyrisskuldbindingar.

Íbúar Hafnarfjarðar voru 28.678 þann 1. desember 2016 samanborið við 28.126 árið áður sem er íbúafjölgun um 552 eða 2%.

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2016 var lagður fram í bæjarráði í dag 11. apríl 2017 og er aðgengilegur á vef Hafnarfjarðar www.hafnarfjordur.is

Attachments:

http://www.globenewswire.com/NewsRoom/AttachmentNg/f5e4a579-4eee-4a6b-9d2e-1a5f44d51ad5


Attachments

Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2016.pdf