Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2017


Sterk fjárhagstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar

Fjármálastaða Hafnarfjarðarkaupstaðar hefur styrkst umtalsvert á undanförnum árum. Þessi styrking kemur vel fram í ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Rekstrarafgangur fyrir A- og B-hluta nam 1.326 milljónum króna og veltufé frá rekstri var 3.646 milljónir króna, sem samsvarar 14,4% af heildartekjum. Þessi góða afkoma hefur leitt til þess að sveitarfélagið tók engin lán á árinu 2017 sem er annað árið í röð og langtímaskuldir voru greiddar niður um 300 milljónir króna umfram gjaldfallnar afborganir á árinu. Framkvæmdir standa yfir við nýjan grunn-, leik- og tónlistarskóla í Skarðshlíð, nýtt æfinga- og kennsluhúsnæði hjá Haukum, nýtt hjúkrunarheimili við Sólvang o.s.frv. Framkvæmdir ársins voru allar fjármagnaðar með eigin fé. Skuldaviðmið er komið niður í 135% og skuldahlutfallið í 159% fyrir A- og B-hluta.

Rekstrarniðurstaða ársins fyrir A- og B-hluta var jákvæð um 1.326 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 554 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða ársins fyrir A-hluta var jákvæð um 740 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 45 milljónir króna.

Helstu frávik voru að skatttekjur voru 477 milljónum króna hærri en áætlun gerðu ráð fyrir, framlög jöfnunarsjóðs voru 309 milljónir króna umfram áætlun og aðrar tekjur voru 321 milljónir króna umfram áætlun. Auk þess var tekjufært vegna seldra lóða um 336 milljónir króna. Breyting á ífeyrisskuldbindingu var 1.047 milljónum krónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir en þar munaði mestu um 677 milljóna króna gjaldfærslu vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð vegna laga nr. 127/2016. Laun og launatengd gjöld voru á áætlun og annar rekstrarkostnaður var 184 milljón krónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Fjármagnsliðir voru um 580 milljónum krónum lægri en áætlun gerði ráð fyrir vegna lægri verðbóta og niðurgreiðslu skulda. Rekstur málaflokka var samkvæmt fjárhagsáætlun. Veltufé frá rekstri nam 3.646 milljónum króna eða 14,4% af heildartekjum.

Greiðslur langtímaskulda námu alls 1,6 milljarði króna eða um 300 milljónir króna umfram afborganir samkvæmt lánasamningum. Engin ný lán voru tekin á árinu annað árið í röð. Fjárhagsstaða Hafnarfjarðarbæjar hefur því styrkst enn frekar á árinu og er skuldaviðmið í árslok 2017 komið í 135% og er vel undir 150% skuldaviðmiði samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.

Fjárfestingar á árinu 2017 námu 3.305 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 3.816 milljónum króna. Meðal helstu framkvæmda voru bygging nýs skóla í Skarðshlíð 466 milljónir króna, bygging hjúkrunarheimilis 511 milljónir króna og bygging æfingar- og kennsluhúsnæðis að Ásvöllum 241 milljónir króna. Kaupverð íbúða félagsþjónustu nam 257 milljónum króna, kaup á húsnæði skattstofunnar sem hugsað er undir starfsemi Félagsþjónustu nam 259 milljónum króna og kaup á St. Jósepsspítala nam 106 milljónum króna. Framkvæmdir við gatnagerð námu 1.336 milljónum króna en tekjur vegna gatnagerðagjalda og byggingaréttar námu 1.415 milljónum króna. Gatnagerðagjöld færð til lækkunar á framkvæmdakostnaði þar til verki lýkur námu 1.079 milljónum króna en tekjufærð gatnagerðargjöld námu 336 milljónum króna.

Heildareignir í lok árs námu samtals 51.173 milljónum króna og hafa þær hækkað um 2.871 milljónir milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 40.187 milljónum króna og hafa hækkað um 1.030 milljónir króna á milli. Langtímaskuldir lækkuðu um 1.203 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding hækkaði um 988 milljónir króna og skammtímaskuldir hækkuðu um 1.283 milljónir króna en munar þar mestu um uppgjör við Brú lífeyrisjóð er nam 677 milljónum króna og hækkun lánardrottna vegna framkvæmdasamninga um 364 milljónir króna.

Íbúar Hafnarfjarðar voru 29.360 þann 1. desember 2017 samanborið við 28.678 árið áður sem er íbúafjölgun um 682 eða 2,4%.

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2017 var lagður fram í bæjarráði í dag 9. apríl 2018 og er aðgengilegur á vef Hafnarfjarðar www.hafnarfjordur.is

Viðhengi


Attachments

Ársreikningur Hafnarfjarðarkaupstaðar 2017.pdf