Klappir grænar lausnir hf.: Hlutafé í B-flokki aukið um 9 milljónir hluta á genginu 15



Klappir grænar lausnir hf.: Hlutafé í B-flokki aukið um 9 milljónir hluta á genginu 15

Hlutafjárútboði Klappa er lokið og skrifuðu áskrifendur sig fyrir 9 milljónum hluta í B-flokki og er söluandvirðið þeirra 135 milljónir króna.  Gengi bréfanna var 15.  Eftir aukningu verður heildarhlutafé 125,5 milljónir þar af 50 milljónir í A-flokki og 75,5 milljónir í B-flokki. Um lokað hlutafjárútboð var að ræða í umsjón Centra Fyrirtækjaráðgjafar.

Hugbúnaðarlausnir Klappa auðvelda fyrirtækjum, stofnunum og stjórnvöldum að mæla og greina áhrif starfsemi þeirra á umhverfið, gera þeim kleift að setja sér markmið um að draga úr áhrifunum og greina umhverfisþættina í starfseminni þannig að aðgerðir til úrbóta verða markvissari. Hugbúnaðurinn styður einnig við umhverfisuppgjör og skýrslugerð um ófjárhagslega þætti í starfsemi fyrirtækja og stofnana. Lausnir Klappa er einstakar og byggja á alþjóðlegum stöðlum og geta lagt fyrirtækjum um allan heim lið í baráttunni við vaxandi mengun og hlýnun jarðar.

Markmiðið með útboðinu var að styðja við dreifingu á hugbúnaði félagsins á alþjóðlegum mörkuðum og fjölga notendum hratt á komandi árum. Klappir er þegar komið í samstarf við erlenda dreifingaraðila á Bretlandseyjum og í Litháen og verður í framhaldi af hlutafjárútboðinu lögð aukin áhersla á að finna samstarfsaðila með reynslu og þekkingu í markaðssetningu og sölu á sérhæfðum tæknibúnaði fyrir ólíkar atvinnugreinar og á mismunandi landssvæðum.

Aðalfundur Klappa verður haldinn 10. apríl 2019 og þar verður lögð fram tillaga um að auka hlutafé félagsins um allt að 50 milljónir hluta með útgáfu nýrra hluta í B-flokki hlutabréfa.

Nánari upplýsingar veita Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa s. 6649200 og Karl Þorsteins, Centra Fyrirtækjaráðgjöf, s. 8962916.