Arion banki: Tilkynning vegna fyrirhugaðs aðalfundar Arion banka hf. í ljósi COVID-19


Líkt og þekkt er hafa Landlæknir og Almannavarnir lýst yfir neyðarástandi í kjölfar útbreiðslu COVID-19. Þann 25. febrúar síðastliðinn var boðað til aðalfundar Arion banka hf. sem mun fara fram þann 17. mars næstkomandi, að öllu óbreyttu. Ráðgert er að fundurinn verði haldinn með óbreyttu sniði, enda ekki verið sett á samkomubann ennþá. Til þess að koma til móts við þær aðstæður sem uppi eru verður boðið upp á vefstreymi af fundinum bæði á íslensku og ensku. Hlekkur á vefstreymið verður aðgengilegur á vefsíðu bankans og í rafrænu kosningakerfi, LUMI AGM, á aðalfundardegi.

Arion banki ítrekar við hluthafa bankans á Nasdaq Iceland að boðið er upp á rafræna kosningu hluthafa utan fundarins. Athugið að þetta úrræði á einnig við um SDR heimildarskírteinishafa sem hafa sent fyrirmæli fyrir þann 10. mars sl. á Skandinaviska Enskilda Banken (SEB) að þeir hyggist mæta á fundinn.

Í ár mun Arion banki í fyrsta skipti bjóða uppá rafræna kosningu á aðalfundi. Kerfið sem um ræðir kallast LUMI AGM og er bæði aðgengilegt í gegnum vefsíðu sem og snjallforrit (app). Til að mæta aðstæðum vegna COVID-19 verður boðið upp á að fá aðgang að kerfinu fyrir aðalfundinn. Hægt verður að greiða rafræn atkvæði frá klukkan 10:00 (GMT) þann 17. mars 2020.

Hluthafar sem hafa í hyggju að horfa á aðalfundinn rafrænt og nýta atkvæðisrétt sinn með þeim hætti eru hvattir til að senda bankanum sem fyrst afrit af skilríkjum á hluthafar@arionbanki.is. Umboðsmenn hluthafa eru beðnir um að senda umboð og afrit af skilríkjum á sama netfang. Í kjölfarið fá hluthafar og/eða umboðsmenn þeirra leiðbeiningar og aðgangsupplýsingar sendar í tölvupósti.

Þeir hluthafar sem hafa nú þegar aðgang að eldra kerfi (Computershare) munu geta framkvæmt rafræna kosningu fyrirfram í gegnum það kerfi líkt og áður. Reglur um kosningu í gegnum Computershare kerfið er að finna á vefsíðu bankans, arionbanki.is/gm.

Arion banki biðlar til allra hluthafa að gæta að hreinlæti í kringum fundinn og virða fyrirmæli yfirvalda um sóttkví og nýta sér frekar rafræna atkvæðagreiðslu ef þeir hafa ferðast um áhættusvæði fyrir fundinn, finna fyrir flensueinkennum eða telja sig hafa verið útsetta fyrir smiti.

Komi til samkomubanns mun Arion banki leita allra leiða til að aðalfundur geti farið fram með sem eðlilegustum hætti m.t.t. aðstæðna og fyrirmæla stjórnvalda.

Fyrir frekari upplýsingar, vinsamlegast sendið póst á hluthafar@arionbanki.is