Niðurstöður aðalfundar Arion banka 2020 með leiðréttingu á niðurstöðum atkvæðagreiðslu


Aðalfundur Arion banka hf. 2020 var haldinn í höfuðstöðvum bankans að Borgartúni 19, 105 Reykjavík, þann 17. mars 2020, kl. 16:00. Á fundinum var í fyrsta skipti notast við rafrænt kosningakerfi.

Við yfirferð á niðurstöðum atkvæðagreiðslu við lok fundarins kom í ljós að ekki höfðu öll atkvæði hluthafa skilað sér inn í talningu einstakra dagskrárliða. Nánar tiltekið urðu mannleg mistök til þess að þau atkvæði sem greidd höfðu verið í gegnum annað kerfi, skiluðu sér ekki með fullnægjandi hætti inn í kosningarkerfið. Í tilfelli tillögu samkvæmt dagskrárlið 14 „Heimild til útgáfu áskriftarréttinda og samsvarandi breyting á samþykktum“ leiddu þessi mistök til þess að röng niðurstaða um atkvæðagreiðslu um tillöguna var birt á fundinum. Þannig kom fram að tillagan hefði verið felld þegar hið rétta er að hún var samþykkt með rúmlega 80,8% greiddra atkvæða. Fyrrgreind mistök höfðu ekki áhrif á úrslit atkvæðagreiðslu um aðra dagskrárliði. Ráðgert er að fundargerð aðalfundarins verði leiðrétt til samræmis. Ítarlegar niðurstöður aðalfundarins verða birtar á vef bankans innan 15. daga.

Eftirfarandi eru niðurstöður fundarins:

  1. Skýrsla stjórnar um rekstur, starfsemi og hag bankans á síðasta fjárhagsári var kynnt af Brynjólfi Bjarnasyni fráfarandi stjórnarformanni
  2. Ársreikningur bankans fyrir síðastliðið starfsár var samþykktur
  3. Samþykkt var að fresta afgreiðslu tillögu um útgreiðslu  arðs
    Arion banka bárust fyrir aðalfundinn skriflegar beiðnir frá hluthöfum, sem ráða yfir meira en þriðjungi hlutafjár bankans, um frestun ákvörðunar á aðalfundi um greiðslu arðs um tvo mánuði. Beiðnirnar byggja á heimild í 3. mgr. 84. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995. Beiðnirnar eru í takt við tilmæli Seðlabanka Íslands um að fjármálafyrirtæki endurskoði arðgreiðslutillögur í ljósi óvissu í efnahagsumhverfinu vegna COVID-19.
  4. Kosning stjórnar bankans

Frambjóðendur í stjórn og stöður varamanna voru sjálfkjörnir. Brynjólfur Bjarnason var jafnframt kjörinn formaður stjórnar og Herdís Dröfn Fjeldsted varaformaður. Var þetta í samræmi við tillögu tilnefningarnefndar bankans.

Í stjórn Arion banka sitja því nú 7 stjórnarmenn:

  • Brynjólfur Bjarnason (formaður)
  • Herdís Dröfn Fjeldsted (varaformaður)
  • Gunnar Sturluson
  • Liv Fiksdahl
  • Paul Richard Horner
  • Renier Lemmens
  • Steinunn Kristín Þórðardóttir             

og varamenn eru:

  • Ólafur Örn Svansson
  • Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir
  • Þröstur Ríkharðsson

  1. Samþykkt var að Deloitte ehf. muni halda áfram í hlutverki sínu sem ytri endurskoðendur bankans

Deloitte ehf. var kjörið til að halda áfram hlutverki sínu sem ytri endurskoðandi bankans fram að næsta aðalfundi. Byggir sú tillaga á samningi milli Arion banka og Deloitte ehf. frá ágúst 2019 og 90. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

  1. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna bankans og laun nefndarmanna í undirnefndum stjórnar fyrir störf þeirra var samþykkt

Samþykkt var að stjórnarlaun og laun nefndarmanna í undirnefndum verði sem hér segir:
Mánaðarlaun stjórnarmanna verði kr. 490.900, mánaðarlaun varaformanns verði kr. 736.200 en mánaðarlaun stjórnarformanns verði kr. 981.400. Stjórnarlaun varamanna verði kr. 248.600 fyrir hvern setinn fund, þó að hámarki kr. 490.900 á mánuði, ef um fleiri en einn fund er að ræða á mánuði. Í tilviki erlendra stjórnarmanna skulu framangreindar tölur vera tvöfaldar. Stjórnarmenn á Íslandi skulu njóta réttinda um séreignarsparnað í samræmi við gildandi kjarasamning Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Þar að auki verði heimilt að greiða þeim stjórnarmönnum sem sitja í stjórnarnefndum félagsins að hámarki kr. 196.300 á mánuði fyrir setu í hverri nefnd og formönnum stjórnarnefnda kr. 255.000 á mánuði.

  1. Tillaga um þóknun til nefndarmanna í tilnefningarnefnd bankans var samþykkt

Samþykkt var að laun nefndarmanna í tilnefningarnefnd verði sem hér segir:
Nefndarmenn í tilnefningarnefnd, þ. á m. formaður nefndarinnar, fái kr. 154.500 fyrir hvern setinn fund, þó að hámarki kr. 154.500 á mánuði ef um fleiri en einn fund er að ræða á mánuði og að hámarki kr. 927.000 á hverju almanaksári.

  1. Tillaga um heimild stjórnar til að samþykkja kaupréttaráætlun

Stjórn var veitt heimild til að samþykkja kaupréttaráætlun byggða á 10. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og til að gera kaupréttarsamninga við starfsmenn félagsins um kaup á hlutum í bankanum að fjárhæð allt að 600.000 kr. að markaðsvirði á ári hverju næstu fimm ár.

  1. Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu bankans var samþykkt

Starfskjarastefna bankans var samþykkt eins og hún var lögð fram á fundinum. Starfskjarastefnan er meðfylgjandi í heild sinni.

  1. Breyting á reglum tilnefningarnefndar

Breytingar á starfsreglum tilnefningarnefndar, eins og þær voru lagðar fram, voru samþykktar. Starfsreglurnar eru meðfylgjandi í heild sinni.

  1. Kosnir voru tveir nefndarmenn í tilnefningarnefnd bankans

Frambjóðendur voru tveir og því sjálfkjörnir:

  • Júlíus Þorfinnsson
  • Sam Taylor
  1. Tillaga um lækkun hlutafjár til jöfnunar á eigin hlutum og samsvarandi breyting á samþykktum var samþykkt

Aðalfundur samþykkti að lækka hlutafé bankans um 84.000.000 kr. að nafnvirði, eða sem nemur 84.000.000 hlutum, til jöfnunar eigin hluta, úr 1.814.000.000 kr. í 1.730.000.000 kr. að nafnverði. Lækkunin nær aðeins til eigin hluta bankans, að uppfylltum skilyrðum laga.

  1. Endurnýjun á heimild bankans til kaupa á eigin hlutum og samsvarandi breyting á samþykktum var samþykkt

Samþykkt var að endurnýja heimild stjórnar bankans, á grundvelli 55. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, til að kaupa fyrir hönd bankans allt að 10% af hlutafé þess. Heimild þessi skal nýtt í þeim tilgangi að setja upp formlega endurkaupaáætlun eða til að gera hluthöfum almennt tilboð um kaup bankans á eigin bréfum, t.d. með útboðsfyrirkomulagi, enda sé jafnræðis hluthafa gætt við boð um þátttöku í slíkum viðskiptum. Framkvæmd endurkaupa á grundvelli heimildar þessarar er háð því skilyrði að fyrirframsamþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, samkvæmt a-lið 3. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, hafi verið veitt.

Til að ná markmiði með framkvæmd endurkaupaáætlunar var stjórn bankans veitt heimild til að kaupa hluti í bankanum, allt að 10% af hlutafé. Við endurkaup skal hæsta leyfilega endurgjald fyrir hvern hlut ekki vera hærra en sem nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutina fara fram, hvort sem er hærra. Viðskipti bankans með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina skulu tilkynnt í samræmi við lög og reglugerðir.

Heimild þessi gildir fram að aðalfundi bankans árið 2021, en þó aldrei lengur en til 15. september 201. Aðrar eldri heimildir til kaupa á eigin hlutum falla úr gildi við samþykkt heimildar þessarar.

  1. Heimild til útgáfu áskriftarréttinda og samsvarandi breyting á samþykktum

Stjórn félagsins var veitt heimild, fram til aðalfundar árið 2022, til að gefa út áskriftarréttindi fyrir allt að 54.000.000 nýjum hlutum í félaginu. Stjórn er jafnframt í fimm ár, til 17. mars 2025, heimilt að framkvæma nauðsynlega hlutafjárhækkun í tengslum við nýtingu áskriftarréttindanna. Stjórn ákveður hverjir fái rétt til að taka þátt í útboði þessara réttinda. Hvorki hluthafar né aðrir skulu njóta forgangsréttar til áskriftarréttindanna né hluta sem gefnir eru út í tengslum við nýtingu þeirra. Stjórn ákveður endanlegt söluverð áskriftarréttindanna á grundvelli áskriftarsöfnunar í lokuðu útboði og nánari skilmála þeirra.

  1. Tillaga um breytingu á samþykktum var samþykkt

Samþykkt var að breyta grein 10.10, þannig að réttur hluthafa til að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á þegar boðuðum hluthafafundi ef hann gerir skriflega eða rafræna kröfu um slíkt til félagsstjórnar verði takmarkaður við aðalfundi bankans

  1. Önnur mál

Brynjólfur Bjarnason, endurkjörinn stjórnarformaður Arion banka, þakkaði fyrir hönd nýkjörinnar stjórnar það traust sem fundurinn sýndi þeim með kjörinu.