Boðun til framhaldsaðalfundar í Arion banka hf.


Framhaldsaðalfundur í Arion banka hf., kt. 581008-0150, verður haldinn rafrænt þann 14. maí 2020, kl. 16:00. Hluthafar eru beðnir um að nálgast aðgangsupplýsingar á vefsíðunni www.smartagm.com. Fundurinn fer fram á íslensku og ensku.

Eftirtalin mál eru á dagskrá fundarins:

      1.       Ákvörðun um greiðslu arðs

            Lagt er til að enginn arður verði greiddur vegna ársins 2019 og að hagnaður ársins 2019 leggist við eigið fé bankans.

      2.       Önnur mál

Aðrar upplýsingar

Endanleg dagskrá, fundarboðun, tillögur og önnur skjöl sem lögð verða fyrir framhaldsaðalfundinn verður að finna á vefsíðu bankans www.arionbanki.is/gm eigi síðar en 23. apríl 2020 og verða aðgengileg í höfuðstöðvum bankans frá sama tíma. Ensk þýðing fundargagna verður aðgengileg hluthöfum í höfuðstöðvum bankans sem og á vefsíðu bankans www.arionbanki.is/gm. Sé misræmi milli fundargagna á ensku annars vegar og íslensku hins vegar, gildir íslenska útgáfan. 

Þeir hluthafar sem óska eftir því að fá tiltekið mál tekið til meðferðar á framhaldsaðalfundinum, skulu senda skriflega eða rafræna beiðni um slíkt í síðasta lagi tíu sólarhringum fyrir boðaðan framhaldsaðalfund, eða í síðasta lagi fyrir kl. 16:00 þann 4. maí 2020. Kröfu skal fylgja rökstuðningur eða drög að ályktun til félagsstjórnar. Senda skal slíka kröfu til félagsstjórnar á netfangið hluthafar@arionbanki.is.

Á framhaldsaðalfundinum fylgir eitt atkvæði hverri einni krónu í hlutafé. Eigin bréf bankans njóta ekki atkvæðisréttar.

Framhaldsaðalfundurinn mun eingöngu fara fram á rafrænan hátt, með Lumi AGM snjallforritinu eða Lumi AGM veflausninni. Hluthafar eru hvattir til að sækja Lumi AGM snjallforritið á snjalltæki sitt, t.d. farsíma eða spjaldtölvu, áður en fundurinn hefst, en slík tæki eru nauðsynleg til þátttöku í fundinum. Hluthöfum mun gefast kostur á því að spyrja spurninga á fundinum, í gegnum Lumi AGM snjallforritið og veflausnina.

Hluthöfum er heimilt að láta umboðsmann sækja framhaldsaðalfundinn rafrænt og fara þar með atkvæðisrétt fyrir sína hönd. Hluthafar einir bera ábyrgð á því hvaða einstaklingum/aðilum þeir afhenda aðgangsupplýsingar sínar.

Hluthafar sem hyggjast mæta á fundinn þurfa að óska eftir aðgangi fyrirfram á vefsíðunni www.smartagm.com. Hluthöfum, sem jafnframt eru lögaðilar eða hyggjast láta umboðsmann sækja framhaldsaðalfundinn, er bent á að tryggja að sá aðili sem sækir um aðgang hafi til þess heimild. Á vefsíðu bankans, www.arionbanki.is/gm, má finna sniðmát af umboði sem hluthöfum er bent á að nýta sér. Nánari upplýsingar um hvernig hluthafar geta nálgast aðgangsupplýsingar, um framkvæmd rafrænnar atkvæðagreiðslu með Lumi AGM og aðrar upplýsingar sem geta átt við er að finna á vefsíðu bankans. Til þess að hægt sé að tryggja tímanlega úrvinnslu á beiðnum hluthafa um aðgangsupplýsingar, skulu hluthafar óska eftir aðgangi á vefsíðunni www.smartagm.com eigi síðar en sólarhring fyrir fundinn, þ.e. eigi síðar en 16:00 þann 13. maí 2020.

Sérstök athygli er vakin á því að atkvæðagreiðsla í gegnum Computershare kerfið, sem bankinn hefur áður notað, verður ekki í boði að þessu sinni, heldur mun atkvæðagreiðsla eingöngu fara fram í gegnum Lumi AGM.

Tilkynning til eigenda SDR heimildarskírteina:

Swedish Depository Receipts (SDR) heimildarskírteinishöfum, sem hafa hug á því að taka þátt með rafrænum hætti á framhaldsaðalfundi eða greiða þar atkvæði samkvæmt umboði, skulu vera skráðir í skrá Euroclear Sweden AB („Euroclear“) fyrir kl. 17:00 (CET) þann 8. maí 2020 og framkvæma annað af eftirtöldu:

  1. Tilkynna Skandinaviska Enskilda Banken AB („SEB“) í síðasta lagi 8. maí 2020 þar um, eða
  2. Senda frumrit umboðs til SEB en það þarf að hafa borist SEB eigi síðar en 8. maí 2020.

SDR heimildarskírteini eru eingöngu skráð á nafn SDR heimildarskírteinishafa í skrá Euroclear. Eigendur SDR heimildarskírteina sem eru safnskráð skulu hafa SDR heimildarskírteini sín skráð á nafn sitt í skrá Euroclear til þess að þeim sé heimilt að taka þátt á framhaldsaðalfundinn eða greiða atkvæði (samkvæmt umboði eða í gegnum Lumi) á framhaldsaðalfundinum. Handhafar SDR heimildarskírteina sem skráð eru safnskráningu skulu því óska eftir því við viðkomandi vörsluaðila að þeir verði tímabundið skráðir eigendur heimildarskírteinanna (skráning til þess að njóta atkvæðisréttar) tímanlega fyrir atkvæðisréttindadag, sem er 8. maí 2020, hafi þeir hug á því að taka þátt í rafrænum framhaldsaðalfundi bankans.

Skilyrði I: Eigendur SDR heimildarskírteina sem skráðir eru í skrá Euroclear, eða þeir sem óskað hafa eftir skráningu til þess að njóta atkvæðisréttar fyrir kl. 17:00 (CET) þann 8. maí 2020, og hyggjast taka þátt í framhaldsaðalfundinum (samkvæmt umboði eða í gegnum Lumi) skulu tilkynna SEB þar um eigi síðar en 8. maí 2020.

Tilkynning eigenda SDR heimildarskírteina um þátttöku á framhaldsaðalfundinum með rafrænum hætti skal berast SEB skriflega stíluð á SEB, Issuer Agent, AB3, SE-106 40 Stokkhólmi, með tölvupósti á netfangið iadarion@seb.se. Eigendur eru vinsamlegast beðnir að tilgreina nafn sitt, tölvupóstfang, símanúmer, kennitölu og fjölda heimildarskírteina.

Skilyrði II: Eigendur SDR heimildarskírteina, sem hyggjast óska eftir því að SEB greiði atkvæði fyrir þeirra hönd samkvæmt umboði, skulu senda frumrit undirritaðs umboðs með pósti eða boðsendingu þannig að það berist til SEB, Issuer Agent, AB3, SE-106 40, Stokkhólmi, heimilisfang fyrir boðsendingar (e.g. DHL Express): Råsta Strandväg 5 169 79 Solna, eigi síðar en 8. maí 2020. Form af umboðum og tilkynningu verða aðgengileg á heimasíðu bankans www.arionbanki.is/gm.

Tímabundin takmörkun á yfirfærslu SDR heimildarskírteina í hluti:

Frá og með lokun markaða 8. maí 2020 til og með 14. maí 2020 verður óheimilt að yfirfæra SDR heimildarskírteini í eða úr hlutum í Arion banka hf.

Allar nánari upplýsingar um fundinn má finna á vefsíðu bankans www.arionbanki.is/gm.

Reykjavík, 17. apríl 2020
Stjórn Arion banka hf.