RARIK ohf - tveir nýir skuldabréfaflokkar


RARIK ohf. („Rarik“ eða „félagið“) efnir til útboðs á skuldabréfum fimmtudaginn 24. september 2020. Boðin verða til sölu skuldabréf í tveimur nýjum skuldabréfaflokkum: RARIK 011025 og RARIK 011040.

Annars vegar er um að ræða RARIK 011025, sem verður óverðtryggður skuldabréfaflokkur með 5 ára lánstíma og mun fylgja 20 ára greiðsluferli miðað við við jafnar afborganir höfuðstóls. Á lokagjalddaga koma því allar eftirstöðvar höfuðstóls til endurgreiðslu. Hins vegar er um að ræða RARIK 011040 sem verður verðtryggður skuldabréfaflokkur með 20 ára lánstíma og fylgir 20 ára greiðsluferli með jöfnum afborgunum höfuðstóls.

Báðir skuldabréfaflokkarnir verða boðnir til sölu með hollenskri aðferð, þ.e. öll samþykkt tilboð bjóðast fjárfestum á hæstu ávöxtunarkröfu sem verður tekið og verða skuldabréfin seld á pari.

Stefnt er að því að skuldabréfaflokkarnir verði gefnir út þann 1. október 2020 og mun uppgjör fara fram þann sama dag.

Tilboðum skal skilað fyrir klukkan 16:00 á útboðsdegi, þann 24. september 2020, til verðbréfamiðlunar Íslandsbanka á netfangið vbm@islandsbanki.is. Félagið áskilur sér rétt til þess að hækka eða lækka fjárhæð útboðsins, taka hvaða tilboði sem er eða hafna þeim öllum.

Íslandsbanki hefur umsjón með útgáfu og útboði skuldabréfanna auk töku þeirra til viðskipta.

Frekari upplýsingar veitir:
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri
Sími: 528-9000