Ársreikningur Landsnets 2021 - Áfram mikil fjárfestingarþörf í flutningskerfinu


Ársreikningur Landsnets 2021
 - Áfram mikil fjárfestingarþörf í flutningskerfinu

Ársreikningur Landsnets 2021 var samþykktur á fundi stjórnar í dag, 17. febrúar 2022.

Helstu atriði ársreikningsins:

  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 59,0 milljónum USD (7.691,8 millj.kr.) 1 samanborið við 46,6 milljónir USD (6.072,7 millj.kr) árið áður.
  • Hagnaður nam 35,6 milljónum USD (4.638,3 millj.kr) á árinu 2021 samanborið við 27,3 milljónir USD (3.563,0 millj.kr.) hagnað á árinu 2020.
  • Handbært fé í lok árs nam 25,2 milljónum USD og handbært fé frá rekstri nam 64,4 milljónum USD.
  • Heildareignir námu 1.020,2 milljónum USD í árslok samanborið við 911,4 milljónir USD 2020.
  • Eigið fé nam 470,6 milljónum USD í árslok samanborið við 404,8 milljónir USD 2020.
  • Arðsemi eigin fjár, á árgrundvelli, var 8,1% á árinu 2021 samanborið við 6,9% 2020.

[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 130,38

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs segir ársreikninginn sýna stöðugleika. Landsnet er fjárhagslega sterkt og vel hefur tekist að stýra rekstrinum með hagkvæmum hætti í heimsfaraldrinum undanfarin ár. Fram undan eru miklar fjárfestingar til styrkingar flutningskerfisins og mikilvægt að fyrirtækið sé vel í stakk búið til þess að takast á við framtíðina.
„Landsnet leggur áherslu á stöðugan og hagkvæman rekstur. Ársreikningurinn sýnir að vel tókst til og reksur ársins gekk samkvæmt áætlunum. Það er afar ánægjulegt í ljósi þess að annað árið í röð fóru saman miklar framkvæmdir og heimsfaraldur skapaði krefjandi aðstæður í daglegum rekstri fyrirtækisins. Byggðalínan er orðin 50 ára og komin að þolmörkum. Kröflulína 3, tengingin á milli Kröflu og Akureyrar, var tekin í rekstur á árinu og var það stór áfangi í uppbyggingu nýrrar kynslóðar byggðalínu. Við höfum nú þegar hafið undirbúning áframhaldandi uppbyggingar á Norður- og Vesturlandi. Það er mikil fjárfestingarþörf á komandi árum því styrking flutningskerfis raforku er lykilatriði í orkuskiptunum. Fjárhagslegur styrkur Landsnets er mikilvægur sem og stöðugleiki í lagaumhverfinu og stuðla þessir þættir, ásamt hagkvæmum rekstri, að trausti lánveitenda til fyrirtækisins. Um mitt ár 2021 var skrifað undir lánasamning við Norræna fjárfestingarbankann að fjárhæð 50 milljóna Bandaríkjadala. Eins naut fyrirtækið aðgengis að lánsfjármögnun hjá Landsbankanum á árinu. Það er ánægjulegt að segja frá því að rekstur Landsnets og framkvæmdir okkar í flutningskerfinu falla að sjálfbærniviðmiðum bankanna varðandi mótvægisaðgerðir í loftlagsmálum og sjálfbæra innviði. Er það traustur grunnur til að byggja á við fjármögnun komandi verkefna.“

Rekstrarreikningur

  • Rekstrartekjur námu 149,8 milljónum USD árið 2021 samanborið við 130,5 milljónum USD árið áður. Félagið hefur þrjú megin tekjustreymi; flutning til stórnotenda, flutning til dreifiveitna og sölu á flutningstöpum og kerfisþjónustu.
    • Tekjur af flutningi til stórnotenda hækkuðu um 8,8 milljónir USD á milli ára. Gjaldskrá stórnotenda hækkaði þann 1.1.2021 um 5,5% og jókst einnig orkuflutningur til stórnotenda á árinu.
    • Tekjur af flutningi til dreifiveitna hækkuðu um 7,4 milljónir USD á milli ára.  Gjaldskrá dreifiveitna hækkaði 9,9% þann 1.1.2021 og einnig var lítilleg aukning í orkuflutningi á árinu. Gjaldskrá til dreifiveitna er í íslenskum krónum og hefur styrking krónunnar á meðalgengi gagnvart USD haft nokkur áhrif á niðurstöðu ársins.
    • Tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutöpum hækkuðu á milli ára annarsvegar vegna áhrifa gengisbreytinga og hinsvegar hækkunar á gjaldskrá. Gjaldskrá fyrir þessa þjónustu er sett á kostnaðargrunni með 1,5% álagi og er ákvörðuð á grundvelli útboða fyrir hvern ársfjórðung.
  • Rekstrargjöld hækka um 6,9 milljónir USD á milli ára.  Aukinn kostnaður á árinu felst aðallega í hækkun á launakostnaði, viðhaldi og innkaupum á orku og kerfisþjónustu en á móti dró verulega úr kostnaði vegna bilana.  Stór hluti þessara liða eru í íslenskum krónum og hefur því breyting á meðalgengi nokkur áhrif til hækkunar.  Meðalgengi USD gagnvart ISK var 127,05 árið 2021 samanborið við 135,27 árið 2020.
  • Áhrif gengisbreytinga kemur fram í ákveðnum liðum í íslenskum krónum innan tekna og gjalda, en í heild hefur styrkingin óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 59,0 milljónum USD samanborið við 46,6 milljónir USD árið áður og hækkar um 12,4 milljónir USD á milli ára.
  • Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 14,8 milljónum USD en voru 12,6 milljónir USD á árinu 2020. Hrein fjármagnsgjöld hækka um 2,2 milljónir USD á milli ára.
  • Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 35,6 milljónum USD á árinu 2021. Hagnaður ársins 2020 nam 27,3 milljónum USD.
  • EBITDA félagsins var 89,7 milljónir USD á árinu 2021 í samanburði við 76,9 milljónir USD árið áður.

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi

  • Heildareignir félagsins í árslok námu 1.020,2 milljónum USD samanborið við 911,4 milljónir USD í lok árs 2020.
  • Handbært fé í lok árs nam 25,2 milljónum USD. Handbært fé frá rekstri nam 64,4 milljónum USD á árinu.
  • Heildarskuldir námu í árslok 549,6 milljónum USD samanborið við 506,6 milljónir USD í lok árs 2020.
  • Eiginfjárhlutfall í árslok var 46,1% samanborið við 44,4% árið áður.

Í samræmi við heimild í alþjóðlegum reikningsskilastaðli voru línur og tengivirki félagsins endurmetnar í lok árs 2021 og nam endurmatið 51 milljón USD.

Árið 2021 var eitt af stærstu fjárfestingaárum í rekstri félagsins og námu framkvæmdir ársins um 89 milljónum USD, sem var að mestu í samræmi við áætlanir félagsins.  Stærstu verkefni ársins voru bygging Kröflulínu, sem var tekin í rekstur á árinu 2021 og Hólasandslínu sem er í byggingu en fyrirhugað er að taka í rekstur á árinu 2022. Liggja þessar línur frá Fljótsdalsstöð til Akureyrar. Einnig voru tekin í rekstur flutningsvirki sem tengjast spennuhækkun á Austfjörðum og tengingu Sauðárkróks og Varmahlíðar.
Þá var í júní gengið frá fjármögnun verkefna við Norræna fjárfestingabankann að fjárhæð 50 m. USD.
Greiddur arður á árinu 2021 vegna afkomu 2020 var 13,8 milljónir USD.

Horfur í rekstri
Áætlanir félagsins fyrir árið 2022 gera ráð fyrir 26,1 milljóna USD hagnaði af rekstri félagsins. Í tekjuáætlun er byggt á þeim magn- og verðbreytingum sem félagið hafði vitneskju um við gerð áætlunarinnar. Hugsanlegar skerðingar framleiðenda gætu haft áhrif á tekjur ársins. Kostnaðaráætlun er byggð á raunkostnaði við rekstur félagsins að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem ákvörðun tekjumarka felur í sér. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að framkvæmdir nemi a.m.k. 57,2 milljónum USD á árinu. Fjármögnun verkefna er í undirbúningi og telur félagið sig hafa gott aðgengi að lánamörkuðum.

Um ársreikninginn
Ársreikningur Landsnets hf. fyrir árið 2021 er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Uppgjör Landsnets er í bandaríkjadölum (USD) sem er starfrækslugjaldmiðill félagsins. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi stjórnar 17. febrúar 2022.

 
Um Landsnet
Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.

Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is

Nánar á www.landsnet.is  þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.

Viðhengi



Attachments

Landsnet fréttatilkynning 2021 Ársreikningur Landsnets 31.12.21