Marel: Nýtt 300 milljón dollara sambankalán undirritað


Þann 2. nóvember undirritaði Marel samning um nýtt 300 milljón dollara sambankalán til þriggja ára. Vaxtakjör í upphafi samsvara 250 punkta álagi á millibankavexti (e. Secured Overnight Financing Rate, SOFR) en álag mun taka mið af þróun skuldahlutfalls (nettó skuldir/EBITDA). Lánið er með vilyrði um allt að tveggja ára framlengingu að þremur árum liðnum.

Nýja lánið er sambankalán frá sömu leiðandi bönkum á alþjóðlega vísu og komu að 700 milljón evra sambankalánalínu félagsins í febrúar 2020, þ.e. ABN AMRO, BNP Paribas, Danske Bank, HSBC, ING, Rabobank, og UniCredit. Þessi breiði hópur fjármálastofnana fellur vel að alþjóðlegri starfsemi Marel og lánveiting þeirra nú endurspeglar vilja þeirra og stuðning við starfsemi félagsins til lengri tíma litið.

Marel uppfyllir öll fjárhagsleg skilyrði útistandandi lána. Samhliða nýju lántökunni nú var hins vegar samið um rýmkun á skilmálum 700 milljóna evra sambankalánalínu félagsins í þeim tilgangi að auka svigrúm til að mæta tímabundnum sveiflum gjaldmiðla og sjóðstreymis.

Hluta nýja lánsins verður ráðstafað til uppgreiðslu á 150 milljóna evra ádráttarheimild sem nýtt var samhliða kaupum á Wenger fyrr á árinu.

Í lok þriðja ársfjórðungs var lausafjárstaða félagsins 170,3 milljónir evra. Nýja lánið mun auka lausafjárstöðuna í 326,6 milljónir evra að teknu tilliti til handbærs fjár.

Fjárfestatengsl
Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið ir@marel.com og í síma 563 8001.

Um Marel
Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Í gegnum árin, hefur Marel skref fyrir skref, útvíkkað starfsemi sína. Með kaupunum á Wenger, sem tilkynnt voru 27. apríl, myndast fjórða stoðin í viðskiptamódeli Marel með áherslu á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Hjá félaginu starfa yfir +7.000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 750 á Íslandi. Tekjur Marel námu um 1,4 milljarði evra árið 2021 en árlega fjárfestir Marel um 6% af tekjum í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands síðan  1992 og var lokið við tvíhliða skráningu í Euronext Kauphöllina í Amsterdam árið 2019. Frekari upplýsingar má finna á marel.com/ir.