Síldarvinnslan hf. – Jákvæð afkomuviðvörun



Í áætlunum félagsins sem lögð var fram á fyrri hluta árs, var gert ráð fyrir að EBITDA samstæðu félagsins yrði á bilinu 86 – 96 milljónir USD. Félagið hefur nú uppfært EBITDA spá sína í 96 -105 milljónir USD.

Útgerð og vinnsla hefur almennt gengið vel á árinu en á síðustu mánuðum hafa komið inn óvæntir jákvæðir þættir í reksturinn sem skýra betri afkomu. Má þar nefna að verð á fiskimjöli og lýsi eru betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, auk þess sem afli var ívið meiri.

Þá var kolmunni veiddur inn á næsta ár eins og heimildir leyfðu en það helgast af mjög sterkum kolmunnakvóta á næsta ári.

Einnig var farið til loðnuveiða í desember sem var ekki gert ráð fyrir í áætlunum félagsins.

Þessu til viðbótar liggur fyrir að Vísir hf. verður hluti af samstæðuuppgjöri Síldarvinnslunnar hf. frá 1. desember sl.

Sveiflur geta verið miklar í sjávarútvegi og ekki einhlítt að ná utan um allar breytur í áætlanagerð.

Vinna við ársuppgjör er að hefjast og því geta lykiltölur enn tekið einhverjum breytingum á uppgjörstímabilinu. Fyrirtækið mun birta niðurstöðu ársins þann 9. mars næstkomandi í samræmi við fjárhagsdagatal.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar hf. í síma 470-7000 eða á fjarfestir@svn.is