Ríkið kaupir alla hluti Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða í Landsneti


Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða hafa náð samningum um kaup ríkisins á 93,22% eignarhlut fyrirtækjanna í Landsneti hf. 

Landsnet var stofnað með lögum 2004 og tók til starfa 2005. Landsnet starfar samkvæmt sérleyfi og gegnir mikilvægu hlutverki á raforkumarkaði, en hlutverk félagsins er flutningur raforku og stjórnun raforkukerfisins. 

Í Orkustefnu til 2050 sem birt var haustið 2020 kemur m.a. fram að hlutlaust eignarhald sé grundvöllur gagnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði og því mikilvægt að ljúka eigendaaðskilnaði flutningsfyrirtækisins þannig að það sé í beinni opinberri eigu. Kaup ríkisins grundvallast á þessu sjónarmiði og eru í samræmi við það sem kveðið er á um með nýlegum breytingum á raforkulögum og lögum um stofnun Landsnets.