Ársreikningur Landsnets hf. 2022 - Með sterkar stoðir inn í framtíðina


Með sterkar stoðir inn í framtíðina 

  • Ársreikningur Landsnets 2022 var samþykktur á fundi stjórnar í dag

Ársreikningur Landsnets 2022 var samþykktur á fundi stjórnar í dag, 16. febrúar 2023.

Helstu atriði ársreikningsins:

  • Hagnaður nam 32,5 milljónum USD (4.616,4 millj.kr) á árinu 2022 samanborið við 35,6 milljónir USD (5.053,1 millj.kr.) hagnað á árinu 2021
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 55,1 milljónum USD (7.827,0 millj.kr.) 1 samanborið við 59,0 milljónir USD (8.379,7 millj.kr) árið áður.
  • Handbært fé í lok árs nam 26,3 milljónum USD og handbært fé frá rekstri nam 73,0 milljónum USD.
  • Heildareignir námu 1.032,4 milljónum USD í árslok samanborið við 1.020,2 milljónir USD 2021.
  • Eigið fé nam 482,3 milljónum USD í árslok og eiginfjárhlutfall 46,7%.
  • Arðsemi eigin fjár, á árgrundvelli, var 6,8% á árinu 2022.

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti segir niðurstöður ársreikningsins sýna að félagið standi á sterkum grunni til að takast að við þær breytingar sem eru fram undan í orkumálum. Handbært fé frá rekstri er sterkt, arðsemi eigin fjár félagsins er 6,8% og hlutfall eigin fjár 46,7%. Mikil þörf er á uppbyggingu í flutningskerfinu til næstu ára og því mikilvægt að hafa fjárhagslegan styrk og stöðugleika til að styðja við það verkefni.

„Hlutverk okkar hjá Landsneti er að byggja upp flutningskerfi sem þarf vera í stakk búið að mæta kröfum samtímans ásamt því að geta tekist á við þær áskoranir sem framtíðin býður upp á. Það fylgir því mikil ábyrgð að reka flutningskerfi raforku hvort sem það snýr að afhendingaröryggi, náttúru eða hagkvæmri nýtingu fjármuna. Við lítum svo á að flutningslínurnar okkar séu í lykilhlutverki þegar kemur að orkuskiptum. Til að hámarka nýtingu orkukerfisins og ná markmiðum þjóðarinnar í orkumálum er nauðsynlegt  að ráðast í sambærilegar úrbætur og aðrar þjóðir hafa gert á fyrirkomulagi orkuviðskipta. Framundan eru spennandi tímar og það er því mjög ánægjulegt að ársreikningurinn sýnir styrk fyrirtækisins og getu til að takast á við framtíðina með nýjum eigendum“ segir Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti. 


Rekstrarreikningur

  • Rekstrartekjur námu 162,8 milljónum USD árið 2022 samanborið við 149,8 milljónum USD árið áður. Félagið hefur fjögur megin tekjustreymi; flutning til stórnotenda, flutning til dreifiveitna, innmötun og sölu á flutningstöpum og kerfisþjónustu.
    • Á árinu var innleidd breyting á innmötunargjaldi. Með þessari breytingu lækkuðu tekjur af flutningi bæði frá stórnotendum og dreifiveitum. Tekjur af flutningi til stórnotenda lækkuðu um 4,2 milljónir USD á milli ára og tekjur af flutningi til dreifiveitna lækkuðu um 3,8 milljónir USD á milli ára.  Gagnvart dreifiveitum hefur veiking krónunnar á meðalgengi gagnvart USD nokkur áhrif þar sem gjaldskrá til þeirra er í íslenskum krónum.  Á móti þessum breytingum hækkuðu tekjur af innmötun og nam sú hækkun 10,4 milljóna USD á milli ára. Í heild hækkuðu tekjur af raforkuflutning, án sölu á tapi og kerfisþjónustu, um 3 milljónir USD á milli ára.
    • Tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og flutningstöpum hækkuðu um  9,7 milljónir USD.  Gjaldskrá vegna flutningstapa er ákvörðuð á grundvelli útboða sem gerð eru fyrir hvern ársfjórðung. Á öðrum ársfjórðungi varð vatnsskortur í vatnsaflsvirkjunum sem leiddi af sér tímabundið hærra verð bæði í innkaupum og endursölu.
  • Rekstrargjöld hækka um 16,9 milljónir USD á milli ára.  Hærra innkaupsverð á orku vegna kerfisþjónustu og tapa nam 9,4 milljónum USD.  Afskriftir hækkuðu um 5,2 milljónir USD og rekstrarkostnaður 2,3 milljónir USD. 
  • Áhrif gengisbreytinga kemur fram í ákveðnum liðum í íslenskum krónum innan tekna og gjalda, en í heild hefur styrkingin óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 55,1 milljónum USD samanborið við 59,0 milljónir USD árið áður og lækkar um 3,9 milljónir USD á milli ára.
  • Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 14,8 milljónum USD en voru einnig 14,8 milljónir USD á árinu 2021. Hrein fjármagnsgjöld eru þvi óbreytt milli ára.
  • Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 32,5 milljónum USD á árinu 2022. Hagnaður ársins 2021 nam 35,6 milljónum USD.
  • EBITDA félagsins var 91,0 milljónir USD á árinu 2022 í samanburði við 89,7 milljónir USD árið áður.

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi

  • Heildareignir félagsins í árslok námu 1.032,4 milljónum USD samanborið við 1.020,2 milljónir USD í lok árs 2021.
  • Handbært fé í lok árs nam 26,3 milljónum USD og handbært fé frá rekstri nam 73,0 milljónum USD.
  • Heildarskuldir námu í árslok 550,1 milljónum USD samanborið við 549,6 milljónir USD í lok árs 2021.
  • Eiginfjárhlutfall í árslok var 46,7% samanborið við 46,1% árið áður.

Greiddur arður á árinu 2022 vegna afkomu 2021 var 3.100 milljónir króna (24,1 milljónir USD).


Horfur í rekstri
Áætlanir félagsins fyrir árið 2023 gera ráð fyrir 33,2 milljóna USD hagnaði af rekstri félagsins. Í tekjuáætlun er byggt á þeim magn- og verðbreytingum sem félagið hafði vitneskju um við gerð áætlunarinnar. Kostnaðaráætlun er byggð á raunkostnaði við rekstur félagsins að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem ákvörðun tekjumarka felur í sér. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að framkvæmdir nemi a.m.k. 101,7 milljónum USD á árinu. Fjármögnun verkefna er í undirbúningi og telur félagið sig hafa gott aðgengi að lánamörkuðum.

Um ársreikninginn
Ársreikningur Landsnets hf. fyrir árið 2022 er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Uppgjör Landsnets er í bandaríkjadölum (USD) sem er starfrækslugjaldmiðill félagsins. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi stjórnar 16. febrúar 2023.

 
Um Landsnet
Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.

Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is

Nánar á www.landsnet.is  þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.

Viðhengi



Attachments

Landsnet fréttatilkynning 2022 Ársreikningur Landsnets 31.12.22